Vonbrigði að HÍ þurfi fjármögnun úr spilakassafé

Stúdentaráð Háskóla Íslands segir það vonbrigði að HÍ þurfi að fjármagna háskólabyggingar, viðhaldskostnað og greiða rannsóknar- og kennslutæki með fjármagni frá Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ). Er þessi niðurstaða ráðsins tilkomin vegna upplýsingaöflunar ráðins um rekstur spilakassa í gegnum HHÍ.

„Óskaði réttindaskrifstofa ráðsins eftir frekari útskýringu ásamt tölulegum gögnum frá Háskóla Íslands sem og HHÍ til að geta kortlagt umfangið betur, frá því rétt fyrir áramót. Þann 8. apríl sl. fór fram auka fundur Stúdentaráðs þar sem ráðið fékk til sín viðeigandi fagaðila til að fjalla um fjárhættuspil og spilafíkn,“ segir í ályktun ráðsins og jafnframt:

„Stúdentaráð álítur að Háskóli Íslands eigi ekki að hafa aðkomu að rekstri spilakassa og skuli fara fram á að stofnunin sé fjármögnuð af ríkisvaldinu þannig að hann þurfi ekki að reiða sig á happdrættisfé. Stúdentaráð telur það jafnframt ótækt að stjórnvöld skuli ekki standa fyrir fjármögnun á ofangreindum þáttum og líti þess í stað svo á að rekstur HHÍ sé meginleiðin til að fjármagna húsnæðismál Háskólans. Þó sjálfstæð eining sé þá er Háskóli Íslands ríkisrekin stofnun og er það beinlínis á ábyrgð stjórnvalda að fjárframlögin til Háskólans séu viðunandi.“

Ályktun ráðsins má lesa hér í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert