Ætti ekki að heita Fagradalshraun

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að mati FERLIs, Ferðahóps rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík, er Fagradalshraun rangnefni og kæmu frekar til álita örnefnin Fagrahraun, Fagradalsfjallshraun eða jafnvel Geldingadalahraun. Þetta segir í grein á vefsíðu hópsins, ferlir.is.

„Fjallið er nefnt eftir Fagradal norðan þess. Dalurinn er óháður gosstöðvunum í Geldingadölum,“ segir í greininni og er bent á að gígar hraunsins, sem málið snýst um, hafi orðið til á sprungu í hlíðum Geldingadala, í miðju Fagradalsfjalli og rann afurð gíganna fyrst niður í Geldingadali.  

„Nefnt hraun hefur, a.m.k. ekki hingað til, runnið niður í Fagradal. Til þess þyrfti það að fylla Geldingadalina upp fyrir neðanverðan Langhól eða Meradalina út fyrir Meradalahnúkana og síðan renna upp á við sunnan Þráinsskjaldar áður en það gæti náð rennsli milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells og Fagradals-Hagafells,“ segir í greininni.

Nafnið sagt „út úr kú“

Segir að lokum í greininni að örnefnanefnd og fulltrúar Grindavíkurbæjar virðist fara villu vegar með nafngiftina og að nafnið sé „út úr kú“.

Greinina í heild sinni ásamt frekari útskýringum á staðháttum má lesa hér.

Í samtali við mbl.is fyrir tæpri viku kvað Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, það ekki vera vandamál að Fagridalur sé norðvestan megin í fjallinu og því ekki við gosstöðvarnar. 

„Fagra­dals­fjall er í raun nafn yfir víðáttu­mikið fjalla­svæði á þess­um slóðum, og nær yfir fjöll og dali. Þetta er því svo­lítið sam­heiti, má segja,“ sagði Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert