Háskólinn mun standa vörð um happdrættið

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Háskóli Íslands mun standa vörð um Happdrætti Háskóla Íslands að sögn rektors HÍ, sem segir jafnframt að happdrættið sé ein grunnforsenda fjáröflunar fyrir byggingar skólans og hafi verið það áratugi. 

Hann segir þó að til skoðunar sé að leita annarra leiða við fjáraflanir.

mbl.is leitaði viðbragða rektors eftir að Stúdentaráð Háskóla Íslands sendi frá sér ályktun þar sem þessi leið fjáröflunar er gagnrýnd, og þá sérstaklega fjáröflun skólans með þátttöku í rekstri spilakassa. 

„Stúd­entaráð álít­ur að Há­skóli Íslands eigi ekki að hafa aðkomu að rekstri spila­kassa og skuli fara fram á að stofn­un­in sé fjár­mögnuð af rík­is­vald­inu þannig að hann þurfi ekki að reiða sig á happ­drætt­is­fé,“ segir meðal annars í ályktun SHÍ.

Verið að ræða aðrar leiðir

„Happdrætti háskólans er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir skólann og hefur stutt áratugum saman byggingar Háskóla Íslands. Ríkið hefur farið þessa leið við fjármögnun byggingar og þess vegna stendur háskólinn vörð um happdrættið,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. 

„En ég vil líka segja að við erum að fara yfir ýmislegt varðandi tekjuöflunina og ég hef skipað sérstakan starfshóp til að ræða það. Það er ansi breiður hópur fólks innan háskólans og ég býst við að fá niðurstöður hans eftir kannski fjórar til fimm vikur eða svo,“ bætir hann við og segir jafnframt að ekki sé unnt að ræða málið frekar fyrr en umræddar niðurstöður liggi fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert