Icelandair hefur litlar áhyggjur

Gosstrókurinn hefur engin áhrif á flugumferð.
Gosstrókurinn hefur engin áhrif á flugumferð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Icelandair hefur ekki áhyggjur af því gjóskukorn úr eldgosinu við Fagradalsfjall sem hafa borist alla leið til Grindavíkur trufli flugumferð.

„Grindavík er miklu nær gosinu heldur en flugvöllurinn og þetta er ekki að fara lengra heldur en það. Við höfum ekki miklar áhyggjur af þessu,” segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Icelandair.

Spurður út í gosstrókinn sem nær um 300 metra yfir gígnum segist hann heldur ekki hafa áhyggjur af honum. Strókurinn sé vel undir flughæð flugvéla Icelandair.

„Okkar vélar, fyrir utan það að fljúga ekki beint yfir gígnum, þá eru þær að fljúga í ríflega 4.000 feta hæð,” segir Jens en það eru um 1.300 metrar. Hann bætir við að mjög auðvelt yrði að forðast strókinn ef hann næði aukinni hæð.

Gjóskukornin eru klístruð viðkomu.
Gjóskukornin eru klístruð viðkomu. Ljósmynd/Teresa Bangsa

Varfærnin að leiðarljósi 

Tvenns konar samráðsfundir eru reglulega haldnir, annars vegar á vegum Isavia þar sem viðbragðsaðilar fara yfir helstu viðfangsefni, og hins vegar fundur þar sem Icelandair fer yfir innri áhættugreiningu. Ýmis mál eru rædd, meðal annars í tengslum við gosið.

Jens segir flugfélagið alltaf hafa varfærnina að leiðarljósi og passar það upp á að meta aðstæður reglulega. Það er í góðu sambandi við almannavarnir, Veðurstofuna og flugtengda aðila til að fá nýjustu upplýsingar.

Spurður hvort flugfarþegar hafi lýst yfir áhyggjum af áhrifum eldgossins á flugferðir segir hann þau ekki hafa orðið vör við það. „Fólk er aðallega spennt fyrir þessu,” segir hann og nefnir að margir hafi gaman af því að sjá eldgosið úr flugvélum í aðfluginu þegar útsýnið er gott.

Boeing 737 MAX-þota Icelandair.
Boeing 737 MAX-þota Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir þær breytingar sem hafa orðið á gosinu ekki hafa áhrif á flug eða flugumferð. Þetta hafi komið fram á reglulegum fundum með Veðurstofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert