Lýsa yfir hættustigi vegna hættu á gróðureldum

Frá slökkvistarfi við gróðurelda við Hafnarfjörð og Garðabæ nýlega.
Frá slökkvistarfi við gróðurelda við Hafnarfjörð og Garðabæ nýlega. mbl.is/Sigurður Unnar

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi hafa ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Meðferð opins elds hefur jafnframt verið bönnuð á svæðunum.

Svæðið sem um er að ræða nær frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. Þessi ákvörðun er byggð á undanfarið hefur lítið rignt þessu svæði og veðurspá næstu daga sýnir ekki neina úrkomu af ráði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum, en áður hafði óvissustigi verið lýst yfir.

Hættustig almannavarna er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða. Í tilkynningunni kemur fram að það að lýsa yfir hættustigi sé hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings

Samhliða því að fara á hættustig þá hafa allir slökkviliðsstjórar, á því svæði sem hættustig nær yfir, tekið þá sameiginlegu ákvörðun að banna meðferð opins elds vegna þurrkatíðar sem nú geysar. Slökkviliðsstjórar hafa sammælst um að slíkt bann sé nauðsynlegt þar sem mikil eldhætta getur skapast af litlum neista.

Tekið er fram að slökkviliðsstjórar geti stöðvað leyfða sinubrennu eða að kveikt sé í bálkesti, og bannað meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum öryggisástæðum.Bann þetta tekur gildi frá og með deginum í dag og tekur til þess landsvæðis sem hættustigið nær yfir. Bannið gildir þar til tilkynning um afléttingu er send út. Brot varða sektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert