Skýrist á næstu dögum hvort HÍ kaupir Sögu

Hótel Saga.
Hótel Saga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rektor Háskóla Íslands segir að það ráðist á næstu dögum, og vonandi á næstu vikum í síðasta lagi, hvort af fyrirætlunum háskólans verði, að festa kaup á Bændahöllinni við Hagatorg, þar sem Hótel Saga hefur verið til húsa. 

„Það eru viðræður í gangi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við mbl.is og bætir við: „Fjármálaráðuneytið leiðir það fyrir hönd ríkisins og þá fyrir hönd Háskóla Íslands í leiðinni og við vonumst til þess að það skýrist á næstu dögum helst, í það minnsta á næstu vikum.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Myndi gera háskólasamfélaginu á landinu öllu gott

Jón Atli segir jafnframt að háskólinn sé mjög áfram um að eignast Hótel Sögu og að þar geti bæði verið stúdentagarðar og kennslurými, og nefnir hann menntavísindasvið sérstaklega í því samhengi.

„Þetta er þá hugsað fyrir háskólastarfsemi og stúdentagarða þá á vegum Félagsstofnunar stúdenta, og við vonumst bara til þess að þetta gangi upp en þetta er ekki alveg komið í höfn hins vegar.

Það væri mjög góður kostur fyrir Háskóla Íslands að þetta gengi upp. Þá gæti menntavísindasvið flutt frá Stakkahlíðinni þar sem það hefur sínar meginstarfsstöðvar og það myndi efla mjög háskólasamfélag Háskóla Íslands og þannig háskólasamfélag á landinu öllu. 

Síðan sameiningin átti sér stað þarna 1. júlí 2008, þegar Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands sameinuðust, þá hefur þetta staðið til og þarna væri bara fábær lausn. Þannig að við erum bara áhugasöm um þetta og vonum að þetta gangi eftir.“

mbl.is