Sögulega miklir þurrkar í maí

Óvenjusólríkt hefur verið síðustu daga.
Óvenjusólríkt hefur verið síðustu daga. mbl.is/Kristinn

Úrkoma í Reykjavík hefur aðeins einu sinni verið minni síðustu 100 ár en hún hefur verið í maímánuði samkvæmt vefsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings. Í Reykjavík hefur aðeins mælst 0,2 mm eða 1% meðalúrkoma. Einungis árið 1958 mældist hún minni. Spáð er skúrum fimmtudag og föstudag en samkvæmt slökkviliði höfuðborgarsvæðisins mun það ekki laga neitt til lengdar. Almenningur er því hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á suðvesturhorninu þar sem gróður er þurr.

Þá hefur verið óvenjusólríkt í Reykjavík en samkvæmt Trausta hafa alls mælst um 153 sólskinsstundir í maí. Það er 88 fleiri klukkustundum að meðaltali en á árunum 1991 til 2020. „Svo margar sólskinsstundir hafa aldrei mælst þessa sömu tíu daga í Reykjavík,“ segir Trausti. Meðalhiti fyrstu tíu daga maímánaðar er þó einungis um 4 stig í Reykjavík en samkvæmt Trausta raðast hann í 18. hlýjasta sæti þessarar aldar.

mbl.is