Ætla að rækta 900 tonn af smáþörungum á Hellisheiði

Framleiðslulína hjá Vaxa Technologies í jarðhitagarði Hellisheiðarvirkjunar.
Framleiðslulína hjá Vaxa Technologies í jarðhitagarði Hellisheiðarvirkjunar. Ljósmynd/Aðsend

Vaxa Technologies hefur samið um stækkun á framleiðslulínu fyrirtækisins í jarðhitagarði Hellisheiðarvirkjunar. Með stækkuninni er áætlað að framleiðsla á smáþörungum muni aukast upp í 100 tonn á ári. Í framhaldi þessarar stækkunar er stefnan sett á að byggja rúmlega 15 þúsund fermetra verksmiðju sem mun auka framleiðnina upp í 900 tonn á ári. Héðinn mun annast uppbygginu verksmiðjunnar.

Að baki Vaxa standa bandarískir og ísraelskir stofnendur og íslenskir fjárfestar. Kristinn segir aðstæður hér á landi einstakar til framleiðslu á smáþörungum (algae). Smáþörunga þessa má nota bæði til fisk- og manneldis, þeir eru prótínríkir og innihalda mikilvægar amínósýrur.

„Hinir erlendu stofnendur hafa áratuga langa reynslu af smáþörungaframleiðslu. Þegar þeir komu hingað fyrst árið 2016 sáu þeir að aðstæður við Hellisheiðarvirkjun eru einstaklega hagstæðar til ræktunnar smáþörunga. Ljós og koltvísýringur eru grundvöllurinn fyrir vexti smáþörunga og frá Hellisheiðarvirkjun fæst rafmagnið til lýsingar og gnægð af koltvísýringi (CO2),“ segir Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Vaxa Technologies.

Vaxa hét áður Algaennovation en fyrirtækið fór í hlutafjárútboð sem hafði safnað tæpum þremur milljörðum króna síðastliðinn nóvembermánuð eins og greint var frá í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 4. nóvember.

Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Vaxa Technologies, ásamt Rögnvaldi Einarssyni, framkvæmdastjóra hjá …
Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Vaxa Technologies, ásamt Rögnvaldi Einarssyni, framkvæmdastjóra hjá Héðni, eftir undirritun smíðasamningsins. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert