Borgarfulltrúi sagður stunda einelti

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, nýtti ræðutíma sinn til að …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, nýtti ræðutíma sinn til að níða Sjálfstæðisflokkinn. Mynd/Skjáskot frá fundi borgarstjórnar

Mikil spenna var milli borgarfulltrúa á fundi borgarstjórnar í gærkvöldi þegar rætt var um nýbirtan og afar dökkan ársreikning Reykjavíkurborgar. Steininn tók þó úr þegar oddviti Pírata nýtti ræðutíma sinn til að níða Sjálfstæðisflokkinn í stað þess að ræða efnislega ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020. Var borgarfulltrúinn í kjölfarið sakaður um einelti og forseti borgarstjórnar harðlega gagnrýndur fyrir lélega fundarstjórn. 

Ræða Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, stóð yfir í um sjö mínútur og snerist nær eingöngu um Sjálfstæðisflokkinn og hversu slæmur hann sé. 

„Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi fyrir sterkri fjármálastjórn, hvorki hér né annars staðar. Hans helsta PR-áróðursmarkmið er að láta líta út fyrir að hann sé það. Að láta fólk trúa því að hann sé ofsalega ábyrgur þegar kemur að fjármálum. En hann er það ekki. Að sama skapi lætur hann eins og allir aðrir séu gjörsamlega út úr kú þegar kemur að fjármálastjórn. Það er heldur ekki rétt,“ sagði Dóra Björt snemma í ræðu sinni og bætti við að jákvæð niðurstaða í Excel skipti Sjálfstæðisflokkinn meira máli en líf fólks og atvinnu- og efnahagsástand. 

„Það er í raun alger vitleysa að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir ábyrga efnahagsstjórn. Hann stendur fyrir sérhagsmunagæslu, hann stendur fyrir spillingu og gæti ekki verið meira sama um velferð einstaklinga. Þetta fyrirlít ég. Hann stendur fyrir þröngsýna og gamaldags nálgun á efnahagsmál og þar sem hann er við völd veldur hann oft miklum skaða. Sjálfstæðisflokkurinn er í raun kýli á samfélaginu. Hann er hreint og beint hættulegur samfélaginu. Hann er ekki ábyrgur, hann stendur ekki fyrir ábyrga fjármálastjórn. Heldur stendur hann fyrir það að gata kerfin okkar svo fjármunir og eignir ...“.

Þegar hér var komið sögu í níðræðu borgarfulltrúans hafði svo mikið kurr skapast í salnum meðal áheyrenda að Dóra Björt missti þráð sinn. „Þetta er einelti,“ heyrðist þá í einum borgarfulltrúa í salnum. Forseti borgarstjórnar sýndi þá loks lit, sló í bjöllu og bað um hljóð í salnum. Að svo búnu hélt Dóra Björt áfram.

„ ...Hann er ekki ábyrgur, hann stendur ekki fyrir ábyrga fjármálastjórn. Heldur stendur hann fyrir það að gata kerfin okkar svo fjármunir og eignir almennings geti lekið ofan í þeirra eigin vasa. [...] Sjálfstæðisflokkurinn er ekki ábyrgur flokkur og hann stendur ekki fyrir ábyrga fjármálastjórn. Það er bara þannig. Punktur.“

„Forseta bar að grípa inn í þennan orðaflaum“

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, var harðlega gagnrýndur fyrir fundarstjórn sína.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, var harðlega gagnrýndur fyrir fundarstjórn sína. Mynd/Skjáskot frá fundi borgarstjórnar

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, var fyrst til að veita ræðu píratans andsvar. 

„Þessi ræða borgarfulltrúans, Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, er rosaleg. Þetta er skítkast dauðans. [...] Þvílíkt drullukast á einn flokk. Mér finnst þetta ekki boðlegt. Og ef eitthvað er einelti, ítrekað, hvort sem það er í blöðum eða hér, sem kemur frá þessum borgarfulltrúa í garð einstaklinga og flokks, þá er það þetta. Ég held við verðum að staldra aðeins við og hugsa okkar gang því ef við endurspilum þetta, lið fyrir lið, orð fyrir orð, þá hljóta allir menn að sjá að þetta er ekki mannsæmandi. Hvorki hér né annars staðar.“

Dóra Björt ákvað þá að svara gagnrýninni og gerði hún það með þessum orðum: „Ég get ekki séð að það sé einelti að gagnrýna flokk sem er valdamesti flokkur landsins og hefur setið við völd meira og minna frá lýðveldisstofnun. Takk.“

Næstur til að taka til máls var Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Hann gerði alvarlegar athugasemdir við misnotkun á ræðutíma og lélega fundarstjórn forseta. Ekki sé verið að ræða ársreikning Reykjavíkurborgar.

„Það er greinilegt að bæði borgarfulltrúinn sem talaði hér áðan og forseti sem stjórnaði hér umræðum voru ekki að fara eftir því. Ég geri miklar athugasemdir við að ræðutími og ræðupúltið hér í borgarstjórn sé misnotað með þessum hætti. Að vera með ásakanir og dylgjur sem í raun fer þvert gegn siðareglum okkar og ræða ekki ársreikninginn. Ég vil minna á að við eigum að ræða ársreikninginn og ef það er ekki virt þá getum við alveg farið að ræða allt önnur mál hér undir - umferðarmál, húsnæðismál eða hvað einhver sé vondur í salnum. Og ég vil fá viðbrögð forseta um hvort honum þyki þetta í lagi því hann er kosinn af okkur öllum,“ sagði Eyþór. 

Pawel Bartoszek, borg­ar­full­trúi Viðreisn­ar og forseti borgarstjórnar, veitti þó engin viðbrögð. Gaf hann þess í stað orðið strax yfir á Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, sem sagði fulltrúa Pírata enn á ný ganga fram með dylgjur og deleríngu. 

„Og það beinist allt gegn einum flokki. Ef hún hefur þessa persónulegu skoðun þá verður hún að hafa hana fyrir sig. Þetta er ekki boðlegt fyrir borgarstjórn Reykjavíkur. Við erum hér að ræða ársreikning fyrir árið 2020 og forseta bar að grípa inn í þennan orðaflaum sem fór hér fram. Því eins og oddviti Sjálfstæðismanna sagði; forseti, þú ert kosinn af okkur öllum.“

mbl.is