„Ekki um refsivert athæfi að ræða“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var upplýst um þetta í aprílmánuði, að það hefði borist kvörtun. Ég var sömuleiðis upplýst um að þar væri ekki um refsivert athæfi að ræða,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um kvörtun sem barst til fagráðs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vegna hegðunar Kolbeins Óttarssonar Proppé í garð konu eða kvenna. 

Katrín útskýrir að ef um refsivert athæfi væri að ræða, í lagalegum skilningi, séu reglur Vinstri grænna þannig að málinu hefði verið vísað til lögreglu. 

Katrín segir um eitt mál sé að ræða á borði fagráðsins vegna Kolbeins. 

Hver er staðan Kolbeins núna og fram að þinglokum?

„Hann tekur þessa ákvörðun að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Það hefur engin krafa verið gerð á hann að víkja af þingi nú. Hann hefur lýst því yfir að hann sé að vinna í sínum málum og það er best að hann skýri það sjálfur.“

Katrín segist virða og styðja ákvörðun Kolbeins um að draga framboð sitt í forvalinu til baka. 

„Við höfum verið að beita okkur að fullum krafti. Það er hins vegar dapurlegt að sjá og upplifa hversu hægt þetta þokast, að breyta viðhorfi og menningu,“ segir Katrín og nefnir í því sambandi fjárveitingar til rannsóknar og meðferðar kynferðisbrota hjá saksóknara og lögreglu, lög frá dómsmálaráðherra um kynferðislega friðhelgi og umsáturseinelti og forvarnaráætlun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. 

Hver er reynsla fagráðsins við að takast á við svona mál?

„Þetta er í fyrsta sinn sem reynir á þetta feril hjá þessu fagráði sem var fest í lög og kosið í árið 2019 hjá flokknum. Ætli við séum ekki í lærdómsferli í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert