Flutt á bráðamóttöku eftir fall

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manneskju sem féll í götuna síðdegis í gær í Austurbænum (hverfi 105) en ekki var vitað hvað amaði að viðkomandi. Hún var flutt á bráðamóttöku Landspítalans til skoðunar að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tekin var skýrsla af manni sem er grunaður um þjófnað úr verslun í miðborginni í gærkvöldi en að öðru leyti tengdust flest mál sem rötuðu í dagbók lögreglunnar að þessu sinni umferðinni, einkum ökumönnum sem liggja undir grun um að hafa verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við aksturinn. Einhverjir þeirra eru einnig án ökuréttinda og hafa jafnvel ítrekað verið stöðvaðir fyrir slíkt brot. 

Tvær tilkynningar bárust um umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í gær. Í hvorugu tilviki var um slys á fólki að ræða en einhverjar skemmdir á ökutækjum. 

mbl.is