„Geggjun“ að halda áfram á sömu braut

A-hluti rekstrar Seltjarnarnesbæjar var rekinn með 344 milljóna króna tapi …
A-hluti rekstrar Seltjarnarnesbæjar var rekinn með 344 milljóna króna tapi í fyrra. mbl.is/Golli

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar var til umræðu á fundi bæjarstjórnar þar í dag, en í ársreikningi kemur fram að A-hluti bæjarins hafi verið rekinn með 344 milljóna króna halla á síðasta ári. 

Um þetta bókaði Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista, og sagði að gamaldags og úreldar nálganir bæjarstjórnar við rekstur bæjarins séu sorglegar og það sjáist best á þeim mikla taprekstri sem bærinn hefur staðið í seinustu ár. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forystu bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar í ein 71 ár.

„Undir stjórn meirihluta Sjálfstæðisflokksins hefur fjármálastjórn bæjarins verið óábyrg. Sorgleg niðurstaða ársreikningsins fyrir 2020 er fyllilega á ábyrgð meirihluta bæjarstjórnar, sem neitar að horfast í augu við það að reksturinn er gamaldags, lélegur og keyrður áfram á skringilegri hugmynd um að hægt sé að veita nútímalega og vandaða þjónustu á sama tíma og Seltjarnarnes er einhvers konar skattaparadís,“ segir meðal annars í bókun Karls Péturs. 

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslistans á Seltjarnarnesi.
Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslistans á Seltjarnarnesi. Ljósmynd/Aðsend

Annaðhvort þarf að lækka útgjöld eða hækka skatta

mbl.is tók hann tali og spurði hvað hann teldi til ráða. Hann sagði þá að augljóst væri að annaðhvort þyrfti að auka tekjur bæjarins með hækkun útsvars eða þá með lækkun útgjalda.

„Í fyrsta lagi þarf að rétta hallann og það verður ekki gert nema með tvennum hætti: auka tekjurnar og/eða minnka kostnaðinn. Það hefur farið mjög mikill tími í það að lækka kostnaðinn svona síðustu tvö þrjú ár og hefur tekist upp að einhverju marki. Ég held að það sé einsýnt að hækka skattanna, það væri bara geggjun að horfa upp á 100-200 milljóna króna tap á hverju einasta ári og segja að það sé bara í lagi að Seltjarnarnes sé bara einhver skattaparadís.“

Telur að íbúar vilji gera betur

Spurður hvernig hann telji að skattahækkanir muni leggjast í Seltirninga, íbúa svæðis sem gefur sig út fyrir lægri útsvarsgreiðslur, segir Karl að hann telji samstöðu meðal bæjarbúa um að gera betur fyrir bæjarfélagið til langframa. Einnig nefnir hann við mbl.is, rétt eins og hann kemur inn á í fyrrnefndri bókun, að kannanir Gallup sýni að ánægja bæjarbúa með þjónustu bæjarins fari minnkandi og sé nú komin úr „toppeinkunn í falleinkunn“.

„Ég held að ef bæjarbúum yrði kynnt einhver framtíðarsýn um það hvernig stjórnendur bæjarins ætla að bæta þjónustuna og hvernig þeir ætla að þróa bæinn áfram, með það að markmiði að geta kannski eftir 5-7 ár lækkað skattanna aftur, hafandi nútímavætt reksturinn og jafnvel fjölgað íbúum, þá geti kannski margir verið til í það uppbyggingarverkefni.“

Og Karl heldur áfram um skattastefnu meirihlutans: 

„Ef þú hefur fengið alltaf sömu niðurstöðuna í sex ár til dæmis, alltaf sama tapið, þá er bara geggjun að halda áfram á sömu braut.“

mbl.is