Geymslur sýknaðar í Hæstarétti

Eldur kviknaði í húsnæðinu árið 2018.
Eldur kviknaði í húsnæðinu árið 2018. mbl.is/RAX

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar og sýknað fyrirtækið Geymslur ehf. af kröfum um bótaábyrgð vegna eldsvoðans í fyrirtækinu árið 2018.

Þau Jóhann Konráð Birgisson og Elfa Hannesdóttir skutu málinu til Hæstaréttar í janúar síðastliðnum en Geymslur voru sýknaðar bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti.

Þau kröfðust ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara að viðurkennt yrði að Geymslur bæru ábyrgð á tjóni þeirra sem varð í brunanum í húsnæði sem fyrirtækið hafði á leigu að Miðhrauni 4 í Garðabæ.

Þau reistu kröfuna einkum á því að Geymslur ræki þjónustustarfsemi um geymslu á lausafjármunum samkvæmt lögum nr. 42/2000 um þjónustukaup.

Fellur undir gildissvið húsaleigulaga 

Með hliðsjón af ákvæðum samningsins, þar sem fram kom að Jóhann hefði tekið á leigu tilgreinda, afmarkaða og aflokaða geymslu, og að Geymslur hefðu ekki haft afskipti af því hvaða lausafjármunum hann kaus að koma þar fyrir eða vitneskju um hvaða munir væru geymdir þar á hverjum tíma, féllst Hæstiréttur ekki á það að samningurinn hefði verið um geymslu lausafjármuna gegn endurgjaldi í skilningi 3. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga um þjónustukaup, að því er segir í reifun Hæstaréttar. 

mbl.is/Eggert

Á hinn bóginn var talið að samningurinn félli undir gildissvið húsaleigulaga nr. 36/1994. Ekki kæmi því til álita að með honum hefði verið vikið frá ákvæðum þjónustukaupalaga neytendum í óhag andstætt fyrirmælum 3. gr. eða að ábyrgð yrði felld á Geymslur á grundvelli 25. og 26. gr. þeirra.

Ósannað að tjón yrði rakið til vanrækslu

Jafnframt var kröfu Jóhanns um að víkja ákvæðum samningsins til hliðar á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar hafnað. Þá var talið ósannað að tjón þeirra yrði rakið til vanrækslu eða annars konar saknæmrar háttsemi Geymslna. Voru Geymslur því sýknaðar af kröfum Jóhanns og Elfu.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 1.000.000 króna.

mbl.is