Hvetur fólk til að uppfæra appið

Alma Möller landlæknir á fundi almannavarna.
Alma Möller landlæknir á fundi almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alma Möller landlæknir hvatti fólk til að uppfæra smitrakningarappið í snjallsímum sínum, eftir að bluetooth-lausn var komið þar fyrir. Hún sagði appið sérstaklega mikilvægt á þessari stundu í faraldrinum.

„Smitrakning er og verður einn af hornsteinum okkar aðgerða til að sporna við Covid-19,“ sagði Alma á fundi almannavarna nú fyrir hádegi.

Benti hún að fyrir ári hefði verið gefið út smitrakningarapp sem byggði á GPS-tækni. Nú sé byggt á bluetooth-tækni. Appið nemur þannig hvenær síminn er nálægt öðrum símum og geymir gögn um slíkt.

Tók Alma fram að enginn afsláttur væri þó gefinn af vörslu persónuupplýsinga og öryggi. Öll gögn væru vistuð á símtækinu sjálfu en ekki á miðlægum gagnagrunni eða í tölvuskýi.

Geta óskað eftir gögnunum

Smitrakning með appinu væri þá ekki sjálfvirk, heldur einfaldlega viðbót við núverandi aðgerðir. Sambærileg öpp væri að finna í Noregi, Írlandi, Þýskalandi og Finnlandi.

Hvatti hún fólk til að uppfæra appið og kveikja svo á tilkynningum um hugsanleg smit.

„Ef þú greinist með Covid-19 þá getur rakningarteymið óskað eftir því að þú sendir þessi gögn til teymisins. Þá er hægt að vara aðra við að þeir hafi orðið útsettir fyrir smiti,“ sagði Alma.

Hún benti á að það hefði tekið tíma að þróa appið. Byrjað hefði verið á að skoða lausnir frá Apple og Google en yfirvöld endað á að þróa eigin útfærslu.

Gerð hefði verið öryggisúttekt hjá óháðum aðila og mat Persónuverndar fengið áður en appið fór í loftið.

Biðlaði til unga fólksins

„Við teljum bluetooth-rakningu sérstaklega mikilvæga á þessum tímapunkti. Það er fyrirsjáanlegt að samfélagið verði opnara eftir því sem fleiri verði bólusettir,“ sagði Alma.

Biðlaði hún sérstaklega til unga fólksins, sem sé mikið á ferðinni, um að uppfæra og hafa appið í tækjum sínum.

„Ég er fullviss um að við höldum dampi og klárum þetta vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert