Íslenski harðfiskurinn vakti lukku á Everest

Yandy Nunez Martinez verður fyrsti Kúbverjinn til þess að klífa …
Yandy Nunez Martinez verður fyrsti Kúbverjinn til þess að klífa á topp hæsta fjalls heims, Everest-fjalls. Hér sést hann með kúbverska fánann og þann íslenska. Ljósmynd/Aðsend

Yandy Nunez Martinez mun reyna að ná toppi Everest-fjalls eftir 20. maí næstkomandi. Yandy er Kúbverji sem búsettur er á Íslandi og mun hann freista þess að verða fyrsti Kúbverjinn í sögunni sem klífur á topp þessa hæsta fjalls heims. Yandy er nú þegar fyrsti Kúbverjinn til þess að komast yfir 7.000 metra yfir sjávarmál.

Yandy lenti í Katmandú, höfuðborg Nepals, þann 2. apríl síðastliðinn og komst í grunnbúðir Everest þann 15. apríl.

Yandy og tindurinn í baksýn.
Yandy og tindurinn í baksýn. Ljósmynd/Aðsend

Halldóra Bjarkadóttir, eiginkona Yandys, hefur leyft mbl.is að fylgjast með för hans.

„Hann var heppinn með veður alla leið upp og komst í grunnbúðir þann 15 apríl. Mjög fallegt landslag á leiðinni og það var gist í svo kölluðum Tehúsum (Tea house). Það var gott veður á daginn en kalt á næturnar. Hann gerði þau mistök að senda svefnpokann beint í grunnbúðir og var honum því kalt allar nætur í þessum tehúsum og fékk smá kvef og hálsbólgu. En hann var fljótur að hrista það af sér þegar hann var komin í grunnbúðir.“

Það eru ekki bara menn sem leggja leið sína upp …
Það eru ekki bara menn sem leggja leið sína upp Everest-fjall. Þessi uxi stendur sína plikt og ber upp koffortið. Ljósmynd/Aðsend

Frelsið á Íslandi gerir Yandy kleift að elta drauma sína

Eins og Halldóra segir mun Yandy freista þess að toppa Everest eftir 20. maí, enda er spáð vondu veðri í komandi viku.

„Miðað við núverandi veðurspá þá er stefnan tekin á að reyna að toppa eftir 20. maí næstkomandi. Það er spáð slæmu veðri frá 13. til 20. maí.“

Yandy er þó ekki eini Íslendingurinn sem nú er á leið á topp Everest, hann hitti nýverið þá Heim­i Fann­ar Hall­gríms­son og Sig­urð Bjarna Sveins­son, sem eru á sama ferðalagi og hann en þeim hafði hann kynnst áður en hann lagði af stað til Nepals.

Yandy sagði við mbl.is fyrr á árinu, áður en hann lagði af stað, að ást hans á fjallgöngum hafi kviknað á Íslandi. Hann býr nú hér á landi og segist hafa ákveðið á toppi Hvannadalshnjúks, hæsta tindi Íslands, að hann skyldi toppa Everest, hæsta tind heims. Yandy segir enda að frjálsræðið sem ríki á Íslandi, í samanburði við það sem tíðkast í heimalandi hans, sé það sem geri honum kleift að elta drauma sína.

Grunnbúðir Everest. Halldóra segir að Yandy tefjist gjarnan vegna þess …
Grunnbúðir Everest. Halldóra segir að Yandy tefjist gjarnan vegna þess hve upptekinn hann er við að taka myndir af fallegu landslagi Everest-fjalls. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskur harðfiskur vakti lukku

Yandy tekur alltaf með sér kúbverskan fána og þann íslenska, til þess að minna sig á sínar heimaslóðir hvaðan hann fær innblástur sinn. Hann lét það þó ekki nægja og tók með sér íslenskan harðfisk í grunnbúðir Everest, sem Halldóra útskýrir að hafi vakið mikla lukku.

„Í hópnum hans eru þrír Frakkar og það voru þrír Japanar. Japanarnir eru allir farnir heim þar sem þetta var of erfitt fyrir þá. Eru þeir því fjórir eftir sem munu reyna við toppinn seinna í maí.

Þetta er skemmtilegur félagsskapur og hafa þeir átt góðar stundir saman í búðunum þegar það hefur verið snjókoma og þoka. Allir hafa lagt eitthvað á borðið saman og lagði Yandy harðfisk sem hefur vakið mikla lukku hjá göngufélögunum ásamt sjerpunum.“ 

Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir.
Yandy og kona hans, Halldóra Bjarkadóttir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is