Leggja til tvöfaldan persónuafslátt

Frá blaðamannafundi Samfylkingarinnar í dag.
Frá blaðamannafundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samfylkingin leggur til að veittur verði tímabundinn skattafsláttur þegar einstaklingar koma aftur til starfa eftir atvinnuleysi. Nánar tiltekið tvöfaldan persónuafslátt í jafn marga mánuði og einstaklingur var atvinnulaus. 

Þessu er ætlað að koma til móts við heimili sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli og þurft að ganga á sjóði sína eða safna skuldum og einstaklingum gert kleift að vinna sig hraðar upp.

Tillagan er hluti af pakka sem Samfylkingin kynnti í dag sem sínar tillögur að efnahagsaðgerðum til að tryggja viðspyrnu atvinnulífsins. 

Samfylkingin metur kostnað við viðbótarúrræðin sem lögð eru til ígildi 3% atvinnuleysis eða 18 milljarða króna. 

Kristrún Frostadóttir, frambjóðandi, Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður og Logi Einarsson, formaður …
Kristrún Frostadóttir, frambjóðandi, Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einnig er lagt til að lágmarksatvinnuleysisbætur verði hækkaðar upp í það sem nemur 95% af lágmarkstekjutryggingu og að atvinnuleysisbótatímabil verði lengt um 12 mánuði. 

Þá er lagt til að fyrirtækjum verði gert kleift að ráða nýútskrifaða einstaklinga úr háskóla- og iðnnámi til starfa á ráðningarstyrk til sex mánaða. 

Aðgerðir Samfylkingarinnar eru til þess fallnar að tryggja að samfélagið rati í réttan farveginn í sumar og frjórri jarðvegur verði til staðar fyrir nýja ríkisstjórn að byggja á eftir næstu kosningar,“ sagði Logi Einarsson, við kynningu tillagnanna.

Fimmta tillagan var að festa í sessi tímabundna hækkun endurgreiðslna á rannsóknar- og þróunarkostnaði og auka framlög til Tækniþróunarsjóðs svo öll framúrskarandi verkefni hljóti styrk.

Síðast er lagt til að listafólk verði styrkt í sumar til að halda viðburði um allt land. Komið verði upp miðlægu og hraðvirku umsóknarferli þar sem listafólk og samkomustaðir geti sótt um styrki til viðburðahalds. 

mbl.is