Sæbraut lokað vegna hlaups

Sæbraut er gerð fyrir bíla eins og allar aðrar götur …
Sæbraut er gerð fyrir bíla eins og allar aðrar götur höfuðborgarsvæðisins. Á morgun mun fólk þó nota hana án bíla, í stutta stund. mbl.is/​Hari

Sæbraut verður lokað fyrir umferð frá kl. 10.30-14.00 á morgun. Ástæðan er Víðavangshlaup ÍR, sem haldið er í 106. skipti, en hlaupið er jafnframt meistaramót í 5 km götuhlaupi.

Hlaupið verður ræst kl. 12 á Sæbraut, gegnt Hörpu, og af þessum sökum verða takmarkanir á umferð um Sæbrautina frá kl. 10.30 og þar til hlaupi lýkur.
 
Hlaupið verður eftir syðri akrein Sæbrautur, austur að gatnamótum við Kringlumýrarbraut, beygt inn á Kringlumýrarbraut og tekinn snúningur til baka í átt að Sæbraut að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns.

Sæbrautin verður þá hlaupin áfram til austurs að Kirkjusandi þar sem tekinn er snúningur á nyrðri akreinina og hún hlaupin til baka áfram í mark, að því er segir í tilkynningu.

Lokunum morgundagsins er lýst hér að ofan.
Lokunum morgundagsins er lýst hér að ofan. Kort/ÍR

Farið fram á sumardaginn fyrsta í rúma öld

„Víðavangshlaup ÍR hefur í rúma öld farið fram á sumardaginn fyrsta. Víðavangshlaup ÍR var fyrst haldið árið 1916 og hefur síðan þá verið órjúfanlegur þáttur í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar og á enginn íþróttaviðburður hér á landi á jafn langa samfellda sögu og Víðavangshlaup ÍR,“ segir þar.

Bent er á að dregið hafi verið úr allri umgjörð hlaupsins til þess að lágmarka viðveru keppenda á keppnisstað og þeir hvattir til að yfirgefa keppnisstað fljótlega eftir að í mark er komið. Leiðbeiningar hafi verið sendar á alla skráða þátttakendur um tilhögun á rás- og endamarki.  

Úrslit verða birt í rauntíma á timataka.net/. Vakin er athygli á að þar sem ræst er í nokkrum ráshópum þá eru fyrstu úrslit birt með fyrirvara um breytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert