Snúið forræðismál á borði héraðssaksóknara

Héraðssaksóknari er með málið á sinni könnu.
Héraðssaksóknari er með málið á sinni könnu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari mun á næstunni ákveða hvort gefin verður út ákæra á hendur pólskri konu sem fór með börn sem hún á með íslenskum karlmanni til Póllands og hefur ekki snúið til baka.

Rannsókn málsins lauk fyrir um tveimur vikum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fór það í framhaldinu á borð héraðssaksóknara. Kæran var lögð fram fyrir um tveimur árum.

Konan mætti í skýrslugjöf hjá lögreglunni í Póllandi í tengslum við rannsókn lögreglunnar hérlendis. Tekin var skýrsla af henni í gegnum fjarfundabúnað og neitaði hún að tjá sig um málið. Eftir það var málið sent til héraðssaksóknara.

mbl.is/Eggert

Pólsk yfirvöld hafa ekki framfylgt úrskurði yfirdómstóls í Póllandi um að konunni beri að fara með börn sín til Íslands til að hitta föður sinn sem hefur ekki hitt þau í eitt og hálft ár, að sögn Fróða Steingrímssonar, lögmanns mannsins.

Fróði vonast til að héraðssaksóknari taki ákvörðun á næstu dögum í málinu. Ef ákæra verður gefin út þarf konan að koma til Íslands og svara til saka fyrir brottnám barnanna sem henni er gefið að sök.

Ef útgáfa ákæru ber ekki árangur er hægt að gefa hana út á erlendri grundu, annaðhvort með evrópskri handtökutilskipun eða með því að birta konunni ákæruna í Póllandi.

Vill sjá kröftugri viðbrögð 

Dómsmálaráðuneytið hérlendis hefur haft afskipti af málinu og óskað eftir því að börnin hitti föður sinn á Íslandi. Núna hefur utanríkisráðuneytið bæst í hópinn og sett þrýsting á pólsk stjórnvöld um að beita sér.

Fróði Steingrímsson lögmaður mannsins.
Fróði Steingrímsson lögmaður mannsins. Ljósmynd/Aðsend

„Það væri gott að sjá kröftugri viðbrögð frá ráðuneytunum í ljósi þess að þetta eru tveir Íslendingar sem eru teknir úr landi en ég vona að þau vinni þetta eftir bestu getu,“ segir Fróði. „Ég væri til í að sjá þau taka af skarið því við höfum þurft að eiga frumkvæðið í öllum aðgerðum.“

Hann kveðst sömuleiðis velta fyrir sér hvort málið eigi einnig að vera á borði Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra.

Að sögn Fróða virðist ekkert benda til þess að pólsk yfirvöld ætli að framfylgja úrskurði um að konan fari með börnin til Íslands. „Þær upplýsingar sem við höfum frá pólskum lögfræðingum eru þær að pólsk yfirvöld eru ekki að sinna þessum málum, þannig að þetta er erfið staða,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert