„Ykk­ar fram­lag verður seint of­metið“

Covid-19 hefur reynt á heilbrigðisstarfsmenn heimsins og eru hjúkrunarfræðingar á …
Covid-19 hefur reynt á heilbrigðisstarfsmenn heimsins og eru hjúkrunarfræðingar á Íslandi engin undantekning. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga er fagnað í dag, 12. maí. Sú dagsetning var valin til þess að heiðra Florence Nightingale sem var brautryðjandi á sviði nútímahjúkrunarfræði. Í pistli sem Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sendi mbl.is biður hún hjúkrunarfræðinga um að hugleiða sérþekkingu hjúkrunarfræðinga og framlag þeirra til heilbrigðiskerfi Íslands.

„Til hamingju með daginn kæru hjúkrunarfræðingar, ykkar framlag verður seint ofmetið,“ skrifar Guðbjörg m.a.

Pistill Guðbjargar er endurbirtur hér fyrir neðan.

„Í dag, 12. maí er alþjóðlegur dagur hjúkrunarfræðinga og er honum fagnað um heim allan en þetta er jafnframt fæðingardagur Florence Nightingale. Þessi árlegi viðburður gefur okkur tækifæri til að vekja athygli á framlagi hjúkrunarfræðinga og endurspegla þeirra miklu sérþekkingu til að veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu. Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á nauðsynlegt og ómetanlegt forystuhlutverk sem hjúkrunarfræðingar hafa sýnt í skipulagningu  og stjórnun viðbragða heilbrigðisgeirans við þessum vágesti. Þeir hafa staðið fremst í víglínunni ásamt fleiri samstarfsaðilum og gert sitt besta til að veita góða og örugga þjónustu í annars óvenju flóknu starfsumhverfi.

Ég þreytist þó seint á því að segja að hjúkrunarfræðingar eru lykilstéttin í baráttunni við veiruna. Þeir hafa af einurð og fagmennsku sinnt mörgum mikilvægum störfum er snúa að faraldrinum, eins og t.d. forvarnarstarfi, ákvörðun um sýnatöku, smitrakningu, sóttkví og að hjúkra þeim sem veikjast af veirunni, auk venjubundinna hjúkrunarstarfa. Því burtséð frá faraldrinum hefur ekkert breyst hvað þörf fyrir hjúkrun varðar. Nýjasta verkefnið í baráttunni eru bólusetningar landsmanna en þar hefur verið stórkostlegt að sjá hvernig stéttin hefur fylgt liði í þetta stóra verkefni og látið það ganga upp snuðrulaust í mikilli samvinnu við aðrar fagstéttir. Þar hefur aðeins eitt leiðarljós verið og er það velferð okkar skjólstæðinga. Hér hefur enn og aftur mikilvægi stéttarinnar sannað sig svo um munar.

Hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta heilbrigðisstéttin á landinu og oftar en ekki þekkja því flestir einhverja hjúkrunarfræðinga. Ég skora því á alla landsmenn að sýna þakklætið í verki með því að óska hjúkrunarfræðingum til hamingju með daginn.

Til hamingju með daginn kæru hjúkrunarfræðingar, ykkar framlag verður seint ofmetið!“

Hér að neðar er annar pistill sem Guðbjörg birti á vef Félags hjúkrunarfræðinga á Íslandi.

Pistill Guðbjargar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert