Reyndi að villa um fyrir lögreglu án árangurs

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan stöðvaði bifreið í miðborginni á ellefta tímanum í gærkvöldi. Er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna.

Í tilkynningu fullyrðir lögreglan að ökumaðurinn hafi reynt að villa um fyrir lögreglumönnum með því að segja rangt til nafns. Það hafi ekki tekist. Þá sé hann jafnframt grunaður um ítrekaðan akstur þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökuréttindum.

Áfengi og vímuefni

Tilkynnt var um árekstur bifreiða í miðborginni um klukkan hálftólf í gærkvöldi. Engin meiðsli urðu á fólki en er annar ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Er viðkomandi vistaður í fangaklefa að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Á miðnætti var bifreið stöðvuð í miðborginni og er ökumaður hennar grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna. Þá er hann sömuleiðis grunaður um vörslu efna.

Fyrr um kvöldið, eða um klukkan hálfsjö, var bifreið stöðvuð í Grafarholti. Er ökumaður hennar jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert