Ásælist ekki birgðir Norðmanna

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er sérlega brýn þörf fyrir fleiri skammta af bóluefni AstraZeneca á Íslandi í ljósi þeirra takmarkana sem eru á notkun bóluefnisins á Íslandi. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Þó sé í skoðun hvort ástæða sé til að reyna að fá þá skammta sem Norðmenn vilja ekki nota.

Stjórnvöld í Noregi tilkynntu á miðvikudag að bóluefni AstraZeneca yrði alfarið tekið úr umferð í landinu. Tímabundið hlé sem gert var á notkun þess 11. mars yrði þar með varanlegt. Þetta gera Norðmenn vegna nokkurra tilfella blóðtappa sem komið hafa upp hjá fólki sem var bólusett með efninu.

Bóluefni AstraZeneca er aðeins gefið körlum yfir fertugu og konum …
Bóluefni AstraZeneca er aðeins gefið körlum yfir fertugu og konum yfir 55 ára aldri. Ríflega 59 þúsund Íslendingar hafa fengið efnið, en þar af eru tæplega 3 þúsund fullbólusettir. AFP

Norðmenn hafa áður lánað Íslendingum 16.000 skammta af efni AstraZeneca, og í ljósi þess að þeir sitja nú uppi með hundruð þúsunda skammta vaknar sú spurning hvort ekki megi reyna að komast yfir þá.

Þórólfur bendir hins vegar á að Íslendingar séu líka með miklar takmarkanir á notkun efnisins. Bóluefnið er ekki notað hjá konum undir 55 ára aldri og körlum undir fertugu. „Við höfum alla tíð viljað fara varlega í notkuninni á bóluefninu,“ segir Þórólfur og bætir við að hann telji ekki gríðarlega þörf á að fá meira af efninu. 

Skilur ákvörðun Norðmanna

Þótt Norðmenn hafi farið aðra leið en Íslendingar þegar kemur að bóluefninu, segist Þórólfur aðspurður hafa skilning á ákvörðun Norðmanna.

„Það eru allir að nota sínar forsendur til að komast að svona ákvörðun og það er mjög skiljanlegt hjá Norðmönnum í ljósi þess að þeir voru með nokkrar alvarlegar aukaverkanir,“ segir Þórólfur. „Það hefði verið erfitt fyrir þá að nota þetta bóluefni áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert