Fjögurra metra varnargarðar reistir

Garðarnir eiga að varna því að hraun flæði niður í …
Garðarnir eiga að varna því að hraun flæði niður í Nátthaga, þaðan sem greið leið er niður á Suðurstrandarveg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinna hófst í nótt við gerð varnargarða við gosstöðvarnar í Geldingadölum, en þeim er ætlað að hefta för hrauntungunnar niður í Nátthaga þar sem leiðin er greið niður á Suðurstrandarveg.

Vefmyndavélar mbl.is

Hraun hefur runnið úr gígum til suðurs í dal sem gengur undir heitinu nafnlausi dalurinn. Eru hrauntungur nú farnar að teygja sig til suðurs ískyggilega nálægt Nátthaga. Þar eru rafmagnslínur og ljósleiðari og auk þess greið leið niður að Suðurstrandarvegi.

Varnarveggurinn verður í fyrstu fjögurra metra hár, en möguleiki á að hækka hann í átta metra síðar.

Gengur hratt fyrir sig

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að verkið gangi hratt fyrir sig enda hefur hönnunin legið fyrir um tíma. Ekki þarf að flytja efni á staðinn heldur er grjót á svæðinu notað til að fylla upp í tvö skörð sem hraunið gæti annars flætt ofan í.

Verktakar eru að störfum en búist er við að lokið verði við að fylla í vestra skarðið í dag og það eystra, sem minna liggur á, á næstu dögum.

Framkvæmdin er á vegum almannavarna enda gripið til þessa neyðarúrræðis til að lágmarka skaða á innviðum, bæði Suðurstrandarveggi og ljósleiðara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert