Flúði stríð í Mósambík og lenti í stríði í Ísrael

Kristína kenndi hóp barna í Pemba, ásamt dætrum sínum, undir …
Kristína kenndi hóp barna í Pemba, ásamt dætrum sínum, undir tré í garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Kristína Ösp Steinke býr í Mósambík ásamt manni sínum, Naor Zinger og þremur dætrum. 

Þau hafa búið í Mósambík í þrettán ár þar sem þau reka fyrirtæki sem borar eftir vatni, ásamt því að Kristína, sem er menntaður kennari, kennir börnum og vinnur ýmis samfélagsverkefni.

Naor er frá Ísrael og Kristína frá Akureyri, þau hafa því frá því að þau fluttu til Mósambík fyrir þrettán árum einnig verið mikið í Ísrael og á Íslandi.

„Við eigum okkur líka fjölskyldu í Mósambík, okkar mósambísku fjölskyldu,“ segir Kristína Ösp í samtali við mbl.is. Dætur þeirra eru þriggja fjögurra og sex ára gamlar.

Stríð í Norður-Mósambík hefur geisað síðan árið 2017. Þá var þetta bara hópur með sveðjur að brenna þorp, sem var rosalegt, en núna, undanfarin ár hefur ISIS komið inn í stríðið, eignað sér árásir og fjármagnað frekari vopnavæðingu,“ segir Kristína Ösp. 

Kristína kennir einnig konum sem misstu húsið sitt í fellibylnum …
Kristína kennir einnig konum sem misstu húsið sitt í fellibylnum Kenneth að byggja hús úr flöskum. Ljósmynd/Aðsend

Snýst um auðlindir

Þetta snýst um olíu og gas, þessar auðlindir er að finna í Norður-Mósambík, nálægt bæ sem heitir Palma. Franska olíufyrirtækið Total tók að bora eftir olíu og gasi í Palma misstu fjölmargir heimamenn lífsviðurværi sitt.

Þá varð til þetta uppnám hjá heimamönnum, sem misstu allt sitt. Þeir fá ekki einu sinni vinnu hjá Total, og fá ekki tekjur á neinu sem er í gangi þarna.

Þá brýst út þessi uppreisn, í kjölfarið var mjög auðvelt að fyrir ISIS-liða að koma, lofa öllu fögru og smá peningum til að fá þá sitt band. ISIS sendir síðan vopn og hópurinn ræðst núna mjög stíft á bæi í Norður-Mósambík.

„Bestu vinir dætra minna eru nágrannar okkar. Þau eru flóttafólk …
„Bestu vinir dætra minna eru nágrannar okkar. Þau eru flóttafólk sem fluttu í bæinn fyrir tveimur árum þegar húsið þeirra var brennt af Al Shabaab genginu.“ Ljósmynd/Aðsend

Hópur uppreisnarmannanna, sem ber ekkert opinbert nafn heldur er kallaður alls konar ólíkum nöfnum í Mósambík, réðust inn í Palma, þar sem Total-olíufélagið er, fyrir skömmu.

Mósambíski herinn hafði ekkert í uppreisnarhópinn,” segir Kristína Ösp og bætir við hann er kallaður alls konar, stundum Al Shabaab, eða æskan. Þetta voru upphaflega ungir menn í uppreisn.

Hann er þó óskyldur hryðjuverkahópnum Al Shabaab í Sómalíu og Jemen.  

Palma er næsti bær við Pemba, þar sem Kristína og Naor búa. Í ótta við að Pemba yrði næsti bær sem hópurinn myndi ráðast á ákváðu þau að flýja til Ísrael og koma fjölskyldu sinni í skjól.

Pemba er höfuðborg ríkisins á svæðinu þar sem öfgahópurinn hefur hreiðrað um sig.

Kristína segir átök í Mósambík í gegnum tíðina ekki hafa snúist um trú þó að ISIS sé nú með afskipti af átökum í landinu. Það hafa aldrei til dæmis verið átök á milli kristinna og múslima hér og ekki miklar öfgar í trú. Fyrir þeim er þetta bara peningar, matur á borðið og að standa fyrir einhverju,“ segir Kristína Ösp. 

Hljóp um borð í flugvél á náttfötunum 

Fjölskyldan ákvað í apríl að flýja til Ísrael. Þau völdu Ísrael fram yfir að koma til Íslands svo að fjölskyldan gæti verið saman, syrgt það sem þau voru að missa í Mósambík, skipulagt framhaldið og stutt hvort annað á ömurlegum tímum.

Við þurftum að bíða eftir fararleyfi til Ísrael vegna Covid-19 faraldursins. Árásin í Palma stóð yfir þegar við tókum ákvörðunina, svo að við vissum að við værum örugg í bili þar sem hópurinn ræður bara við eina árás í einu.

Eftir að hafa ýtt á eftir ísraelskum stjórnvöldum kom leyfi í lok apríl. Þá fengum við inn hér og við hlupum strax af stað. Ég hljóp með stelpurnar á náttfötunum upp í flugvél.

Kristína segir að þessar síðustu vikur hafi tekið verulega á og sé enn verulega erfiður tími fyrir sig og fjölskyldu sína. Þau hafi á örskotsstundu þurft að yfirgefa heimili sín, starfsfólk og gæludýr og halda til Ísrael í von og óvon um að mósambíska fjölskylda þeirra myndi lifa næstu daga af. 

Kristína Ösp ásamt dætrum sínum þremur. „Ég flaug með 11 …
Kristína Ösp ásamt dætrum sínum þremur. „Ég flaug með 11 kíló í farangri frá Pemba til Ísrael þegar ég fékk loksins leyfi til að komast til Ísrael og flugið var 40 mínútum síðar. Allir ógreiddir og í náttfötum.“ Ljósmynd/Aðsend

Kristína segir oft óljósar línur á milli hers og hryðjuverkasamtakanna. Stundum mæti vígamenn úr samtökunum í herklæðum, hafa lista af nöfnum og leita að fólki á listanum.

„Þetta eru yfirleitt einhverjir sem hafa þegið pening frá samtökunum en mættu síðan ekki á vígvöll, svo er líka mikið um handahófskennd morð.“ Hún segir fólk sé afhöfðað, stelpum og konum er rænt, húsin og aleigur séu brennd. 

Fjölskyldan fór í sóttkví við komuna til Ísrael en síðan var lífið þar í landi eins og Covid-19 hefði aldrei gerst.

„Við fórum bara út að borða, hér er allt opið eins og það hafði alltaf verið.“ Hún segir Ísrael hafa verið mjög kærkomið frí frá mikilli spennu í Pemba þar sem þau máttu búast við árás hvenær sem er.

Vissi ekki af ástandinu í Ísrael fyrr en hann lenti 

Síðan fór maður Kristínu aftur til Pemba, til að reyna að koma starfsfólki sínu í skjól, ganga frá húsinu sínu og því sem hægt er að bjarga úr fyrirtækinu. „Kaffibollinn minn var bara enn þá á borðinu og mjólkin inni í ísskáp af því að við bókstaflega hlupum upp í flugvél.“

„Hann fór út sama dag og árásirnar hér byrjuðu. Það var ekki fyrr en hann lenti í Mósambík og kveikti á símanum sínum sem hann vissi af þessu.

Hann er þar núna að finna fyrir okkur húsnæði í Mapútó. Þangað erum við að flytja núna með allt okkar.“

Mapútó er höfuðborg Mósambík og jafnframt stærsta borgin. Hún er 2500 kílómetrum sunnar en Pemba. „Það er eins og annað land bara,“ útskýrir Kristína Ösp.

Í Ísrael halda Kristína og dætur hennar til hjá tengdaforeldrum hennar, sunnan við Tel Aviv.

Hávaði sem ekkert fær lýst 

„Það eru endalausar sprengjur og loftárásir. Ég veit að mest af þessu eru sprengjur frá Ísraelsher sem stoppa eldflaugar frá Palestínu. En þegar þær eru sprengdar fer viðvörunarkerfi í gang sem er hávaði sem ég get ekki einu sinni lýst.

Þetta nístir inn að beini og þó að þú viljir ekki, eða teljir þig ekki þurft að leita skjóls, gerir þú það samt, vegna þess að þú vilt komast frá hávaðanum. Þetta er ógeðslegt.

Síðan rignir niður eldflaugatætlunum, sem voru skotnar niður, út um allt.“

Kristína segir stríðið verða að stöðva. „Það er enginn að vinna þetta stríð, þetta er ógeðslegt út í gegn. Það eru hryðjuverkasamtök öðrum megin og það er her hinum megin, já eða tvenn hryðjuverkasamtök og það er enginn að vinna.“

„Ég sá eldflaug fljúga yfir hausinn á mér“

Kristína segir almenning í Ísrael að mörgu leiti á milli steins og sleggju þar sem enginn bað um núverandi stríðsástand, en engu að síður upplifa þau lífum sínum og sinna ógnað. 

„Þetta byrjaði á afmælinu mínu. Við vorum að borða köku á veitingastað og svo sáum við eldflaugum rigna yfir. Ég sá eldflaug fljúga yfir hausinn á mér, með börnin mín hjá mér. Svo fór viðvörunarkerfið í gagn. Fólk henti sér í götuna, reif börnin sín úr bílum, henti frá sér pokum og hlaupa af stað í einhver skýli hér og þar. Þetta er bara hræðilegt.“

Kristína og fjölskylda leituðu í skýli hjá veitingastaðnum og þar var fólk grátandi og í áfalli. Þar voru einnig börn á þannig aldri að það hafði ekki upplifað loftárás áður, þar sem ekki hefur komið til slíkra átaka síðan árið 2014. „Þau eru líka stóreygð, skjálfandi og grátandi og í miklu áfalli, rétt eins og við,“ segir Kristína Ösp. 

Kristína lýsir sprengingunum þannig að hávaðinn sé gríðarlegur þegar þær lenda, en þrýstingurinn sé meiri „Það skelfur allt og nötrar. Maður er rosalega lítill í þessu umhverfi.“

Kristína segir mjög þreytt í alþjóðlegum fréttaflutningi að löndunum sé stillt upp sem tveimur liðum í pólitískum og hernaðarlegum átökum.

Slökkt á Netanjahú

„Ég hef ekki heyrt í einum Ísraela sem vill bara að Palestínumenn séu drepnir. Hér ríkir bara hræðilegt ástand og mikil eyðilegging. Það getur enginn sofið, það eru allir á nálunum alltaf, það er ekkert venjulegt, það er ekki hægt að eiga fjölskyldulíf. Bara hreint hræðilegt og ísraelskur almenningur kallar eftir lausn í málinu og að þessi ástandi linni.“

Hún segir að þegar Netanjahú hafi flutt ræðu í sjónvarpi um daginn hafi á hennar heimili bara verið slökkt á sjónvarpinu.

Nágrannakona Kristínu Aspar er búin að liggja á bæn í fjóra daga og vonar að þetta hætti af því að ef það gerist ekki þá verða börnin hennar þrjú kölluð inn í herskyldu. Það er versta martröð allra mæðra í Ísrael.

Stelpurnar sofa á ganginum heima hjá afa og ömmu í …
Stelpurnar sofa á ganginum heima hjá afa og ömmu í Ísrael af því það er öruggasti staðurinn. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ekki mennskt. Engin svona öfgapólitík er mennsk. Þú þarft að vera eitthvað vera eitthvað dýr til að finna ekki til í hjartanu fyrir palestínskum börnum. Það er ekki mennskt og auðvitað er þetta ekki fólkið í landinu.

En að sjálfsögðu, þegar börnin mín eru í þessari hættu, þá óska ég þess að Ísraelsher stöðvi þetta. Og mér er sama hvernig, í augnablikinu, get ég ekki hugsað um annað, ég er líka bara mennsk. Fólk í Palestínu er líka bara mennskt og það getur og á ekki að hugsa um neitt annað en sitt öryggi.

Auðvitað eru þetta aðstæður sem eiga ekki að vera til. Að fólk sé sett í þær aðstæður að hata nágrannann vegna þess að það sé yfirvofandi ógn, að það eigi óvin og allir vilji drepa. Þetta eru aðstæðurnar. Þetta er algjörlega úr höndunum á fólkinu sem á heima hérna.“

Börnin spyrja af hverju einhver vilji drepa sig

Ég vil ekki vera hérna, ég vil ekki taka þátt í þessu og vil ekki að börnin mín taki þátt í þessu. En hér erum við stödd, ég þarf að útskýra fyrir börnunum mínum af hverju einhver er að senda sprengjur á okkur, þær spyrja oft af hverju einhver er að reyna að drepa þær.“ 

„Það ætti að banna allt svona sem fullorðið fólk notar til að meiða börn,“ sagði dóttir Kristínu við hana.

Kristína segir að hugur sinn sé í Mósambík, hjá fólkinu sem hefur byggt upp fyrirtækið þeirra hjóna með þeim, konum sem hafa tekið þátt í uppeldi þeirra.

Það er bara fjölskylda í Mósambík sem við getum ekki bara skilið eftir hjá ISIS.“ 

mbl.is