Þolandi styrkti baráttu gegn ofbeldi á börnum

Fjárupphæð sem stúlkunni hafði verið greidd fer í að berjast …
Fjárupphæð sem stúlkunni hafði verið greidd fer í að berjast gegn kynbundnu ofbeldi gegn börnum í Tógó. Myndin er sviðsett. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Móðir ungrar stúlku á efsta stigi grunnskóla, sendi SOS Barnaþorpum nýverið 53 þúsund króna fjárframlag, sem jafngildir fjárupphæð sem stúlkunni var greitt fyrir kynferðislegar myndasendingar á netinu. Móðir stúlkunnar hefur tilkynnt brotið gegn dóttur sinni til lögreglu, sem hefur nú málið til skoðunar. 

Þetta kemur fram á vefsíðu SOS Barnaþorpa

Þar segir að móðirin vilji gæta nafnleysis, sem SOS Barnaþorp virða. Hún hafi með framlaginu viljað koma peningnum til góðs. Þúsundirnar 53 munu renna til verkefnis SOS Barnaþorpa í Afríkuríkinu Tógó, þar sem verið er að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. 

Konunni hafði verið ráðlagt að gefa peninginn til góðgerðarmála og vildi með þessu einnig vekja athygli á þeirri hættu sem getur vofið yfir börnum á internetinu, á Íslandi eins og um heim allan. 

Á vef SOS Barnaþorpa segir að verkefni samtakanna í Tógó hafi reynst einkar vel þrátt fyrir að vera skammt á veg komið. Verkefnið hefur leitt af sér fangelsun minnst þriggja barnaníðinga og fræðslu fyrir foreldra, sem hefur leitt af sér fleiri tilkynningar um ofbeldi gegn börnum til yfirvalda.

mbl.is