Upplýsingaskilti fyrir gangandi og hjólandi spretta upp

Nýju skiltin eru þegar komin á átta staði og mun …
Nýju skiltin eru þegar komin á átta staði og mun þeim fjölga á komandi misserum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hefur komið upp upplýsingaskiltum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur við átta áningarstaði í borginni, en þar má finna upplýsingar um bæði nærumhverfi og tengingar út frá áningarstöðunum við svokallaðar lykilleiðir á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er ætlunin að fjölga skiltunum á næstunni og munu þau vera um alla borg. Er verkefnið unnið að frumkvæði borgarinnar, en í samvinnu við nágrannasveitarfélög.

Á nýju skiltunum verða m.a. fjarlægðaupplýsingar auk þess sem hægt …
Á nýju skiltunum verða m.a. fjarlægðaupplýsingar auk þess sem hægt er að sjá hvaða leið er best að fara á milli hverfa og sveitarfélaga. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Kortið sem sýnir nærumhverfið er ítarlegt og sýnir þar hvort um sé að ræða malbikaðar leiðir eða göngustíga, en í stærri útgáfunni er notast við einfaldaða framsetningu sem margir kannast við úr samgöngukerfum erlendis. Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að skiltin séu hönnuð í samræmi við nýtt útlit sem verði á kortum Borgarlínu og í nýju leiðarkerfi Strætó.

Lykilleiðir á höfuðborgarsvæðinu eru fimm talsins og voru þær fyrst kynntar fyrir tæplega þremur árum síðan. Er hver leið með sinn litakóða og má víða um höfuðborgarsvæðið sjá skilti sem vísa á umræddar leiðir.

mbl.is