900 milljóna árlegur kostnaður vegna myglu

Síðustu 3 ár hefur kostnaður vegna rakaskemmda og myglu verið …
Síðustu 3 ár hefur kostnaður vegna rakaskemmda og myglu verið um 900 milljónir á ári. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árlegur kostnaður Landspítalans við að uppræta myglu síðustu þrjú ár hefur að meðaltali verið tæpar 900 milljónir á ári. Þegar horft er yfir sex ára tímabil nemur kostnaðurinn 4,4 milljörðum, eða tæplega 730 milljónum árlega. Áætlað er að yfir 200 starfsmenn spítalans hafi leitað til göngudeildar lyflækninga vegna heilsufarsvanda sem starfsmenn telja að tengist rakavanda eða myglu á vinnustað. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins um myglu á Landspítalanum.

915 milljónir vegna Dalbrautar

Mestur kostnaður við að uppræta myglu á síðustu sex árum er vegna framkvæmda við Dalbraut, þar sem húsnæði barna- og unglingageðdeildar (BUGL) er staðsett. Samkvæmt sundurliðun á kostnaði við framkvæmdir vegna rakaskemmda undanfarin ár hjá spítalanum má sjá að um 915 milljónir hafa farið í viðgerðir í þremur áföngum við húsnæði spítalans við Dalbraut.

Önnur stór verkefni hafa verið 332 milljóna framkvæmdir við aðalbyggingu A við Landspítalann í Fossvogi, 331 milljón króna framkvæmd við hús 6 við Hringbraut og 281 milljóna framkvæmd við hús 7 við Hringbraut.

Á síðustu 6 árum hefur 915 milljónum verið varið í …
Á síðustu 6 árum hefur 915 milljónum verið varið í framkvæmdir til að koma í veg fyrir rakaskemmdir og myglu í húsnæði Landspítalans við Dalbraut, en þar er meðal annars Barna- og unglingageðdeild (BUGL) til húsa.

Fram kemur í svari ráðherra að ráðist hafi verið í ýmsar lagfæringar vegna rakavanda í byggingum spítalans og bæði hafi verið um stór og smá verkefni að ræða. „Fyrstu lagfæringar eru ávallt að koma í veg fyrir rakasöfnun og síðan er fjarlægt skemmt byggingarefni og byggingarhlutar,“ segir í svarinu. Þá geti stundum þurft að fjarlægja alla byggingarhluta þannig að engar leifar af myglu verði eftir, en slíkt sé erfitt í spítalabyggingum þar sem sem mjög þröngt sé um starfsemina og erfitt að færa til sérhæfða starfsemi.

Fjöldi starfsmanna leita sér aðstoðar vegna gruns um áhrif af myglu

Í svarinu segir að til trúnaðarlæknis Landspítala leiti að meðaltali um 20 starfsmenn á ári vegna einkenna sem þeir telja að geti stafað af myglu eða rakavanda í starfsumhverfi. Til viðbótar við það hafi 424 einstaklingar leitað til göngudeildar lyflækninga í Fossvogi frá árinu 2013, en áætlað er að helmingur þeirra séu starfsmenn Landspítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert