Mikil leynd ríkir um fundinn sögulega

Líklegt þykir að Antony Blinken og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Bandaríkjanna …
Líklegt þykir að Antony Blinken og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands, fundi í Höfða í næstu viku. mbl.is/Brynjar Gauti

Hvorki gengur né rekur að fá upplýsingar beggja vegna Atlantshafsins, og hér innanlands sömuleiðis, um fund utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands, Antony Blinken og Sergei Lavrov. Fyrirhugað er að þeir fundi hér á landi í tilefni af ráðherrafundi norðurskautsráðsins, sem fram fer í næstu viku.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur vissulega sagt við mbl.is að fundurinn verði sögulegur og að alltaf sé ánægjulegt þegar ráðherrar utanríkismála komi saman og ræði sín á milli, sérstaklega augliti til auglitis.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Hann segir að fundurinn …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Hann segir að fundurinn verði sögulegur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðherrar allra landa funda hverjir með öðrum

Blinken og Lavrov munu þó ekki aðeins ræða sín á milli, heldur munu þeir báðir ræða einslega við téðan Guðlaug og að minnsta kosti mun Blinken ræða við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Búast má því við að Lavrov geri það sömuleiðis. 

Svo funda flestir utanríkisráðherrar aðildarríkja norðurskautsráðsins sín á milli. Aðildarríkin eru átta: Ísland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Kanada, Bandaríkin og Rússland auk samtaka frumbyggja á norðurslóðum.

Á vefsíðu norðurskautsráðsins segir að utanríkisráðherrar aðildarríkjanna muni koma hingað til lands með eins takmarkað starfslið og unnt er, vegna heimsfaraldursins. Öðrum fulltrúum, sem boðaðir eru á fundinn, verður þó boðið að taka þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Eyðimerkurganga blaðamanns hófst þegar rætt var við talsmann utanríkisráðuneytisins hér heima, Svein H. Guðmarsson, sem benti á að íslenska utanríkisráðuneytið stæði vissulega ekki að fundi Blinkens og Lavrovs. Ráðuneytið væri hins vegar boðið og búið til þess að aðstoða við fundarhöldin en lengra næði samstarfið ekki. 

Því var þó hvíslað að blaðamanni af starfsmönnum ráðuneytisins að þótt upplýsingar um fundinn lægju fyrir í utanríkisráðuneytinu, sem þær eflaust gera, væri ekki unnt að veita þær, enda ríkir mikill trúnaður um fundarhöld sem þessi. 

Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Þaðan fást litlar upplýsingar, hvort sem þær …
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Þaðan fást litlar upplýsingar, hvort sem þær liggja fyrir þar innandyra eða ekki. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Höfði þykir líklegur

Meðal þess sem blaðamaður óskaði eftir að fá að vita var hvar fundur Blinkens og Lavrovs yrði haldinn og hvernig yrði staðið að sóttvörnum í tengslum við hann. Munu þeir kollegar sitja saman, fullbólusettir, í Höfða í Reykjavík með fullbólusett starfslið með sér? Það verður að teljast líklegt, enda þykir Höfði tilvalinn fundarstaður af augljósum ástæðum. 

Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, og Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, á leiðtogafundinum …
Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, og Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, á leiðtogafundinum í Höfða árið 1986. Þar sátu einnig fund George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Edu­ard Am­bros­iyevich Shev­ar­dna­dze, utanríkisráðherra Sovétríkjanna, við sama tilefni. mbl.is/RAX

Þessari spurningu var næst beint að bandaríska sendiráðinu, sem áðurnefndur Sveinn H. Guðmarsson lagði til að blaðamaður ræddi við. Þar svaraði móttökuritari í símann og kvaðst ætla að koma skilaboðum áleiðis til fjölmiðlafulltrúa sendiráðsins, sem svaraði um hæl. 

Patrick C. Geraghty, fjölmiðlafulltrúi sendiráðsins, sagðist hafa hringt persónulega til Washington D.C., í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, og tjáð þeim að þau ættu von á skilaboðum frá íslenskum blaðamanni. Svo fór að endingu að aðeins var veittur aðgangur að fréttatilkynningu sem hafði áður verið birt.

Þar kom einungis fram hver ferðaplön Blinkens utanríkisráðherra væru, hann lendir á morgun í „danska konungsveldinu“ og hittir þar fyrir Mette Frederiksen forsætisráðherra og Jeppe Kofod utanríkisráðherra, ásamt fleirum. Hann kemur svo til Íslands á mánudag. 

Því er fátt annað vitað um fundinn en hver ferðaplön utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru, en þau eru svo sem á allra vitorði. 

Vel á minnst, fengust svo enn minni upplýsingar frá rússneska sendiráðinu hér á landi. Þar hringdi bara út þegar blaðamaður leitaði svara við fyrrgreindum spurningum. 

mbl.is