Unnið fram á kvöld að gerð varnargarða

Frá gerð varnargarðsins í dag.
Frá gerð varnargarðsins í dag. Ljósmynd/Aðsend

Verktakar, sem vinna að því að stífla hraunrennsli frá eldgosinu í Geldingadölum þannig að það fari ekki niður í Nátthaga, hafa lokið við gerð fyrri varnarveggsins. Nú er unnið að þeim síðari, en veggirnir eru 4 metra háir. 

„Það er búið að klára fyrsta áfanga á vestari garðinum upp í fjóra metra, og við erum byrjaðir á austurgarðinum. Það miðar ágætlega áfram og það verður unnið fram á kvöld í honum. Hann væntanlega klárást á morgun,“ segir Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís sem hefur umsjón með verkinu. 

Til greina gæti komið að hækka veggina upp í allt að 8 metra. Þó hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um slíkt. 

Framkvæmdir hófust aðfararnótt föstudags, en þá var í skyndi komið upp svokölluðum neyðarruðningum við hraunkantinn. Ekki er um að ræða varnargarð heldur frekar ráðstöfun til að tryggja vinnusvæðið. 

„Það eru neyðarruðningar sem við ruddum upp að hrauninu sjálfu og það er aðeins farið að þrýstast yfir þá vestan megin, en ekki austan megin,“ segir Ari. 

Hann telur þó að öryggi starfsmanna sé tryggt á svæðinu. 

Kort sem sýnir mögulegt hraunflæði frá gosinu í Geldingadölum.
Kort sem sýnir mögulegt hraunflæði frá gosinu í Geldingadölum. kort/Náttúruminjasafn Íslands
mbl.is