Guðlaugur mætir fyrir utanríkismálanefnd á morgun

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mun á morgun mæta fyrir utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða átök Ísraelshers og Hamas-samtakanna á Gaza-svæðinu. Þetta sagði Bryndís Haraldsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, í Silfrinu í dag.

Átökin voru rædd í þættinum og spurði þáttarstjórnandi Bryndísi hvort samstaða væri innan ríkisstjórnarinnar um þessi mál í ljósi yfirlýsingar þingflokks Vinstri grænna í vikunni, en þar fordæmdi flokkurinn „valdníðslu, mar­g­end­ur­tekn­ar land­tök­ur og brott­vís­an­ir palestínskra heima­manna úr byggðum sem svo eru eyðilagðar og lagðar und­ir ísra­elska land­töku­menn“. Var sagt að þetta væru gróf brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og mannréttindum.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.

Bryndís sagði að hún hefði ekki tekið eftir ósætti meðal ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir yfirlýsingu Vinstri grænna. Tók hún fram að staðan væri flókin, en íslensk stjórnvöld hefðu sent skýr skilaboð þar sem allt ofbeldi væri fordæmt. Þá hefði landtaka Ísraelsmanna einnig verið fordæmd og tók hún undir að ójafn leikur ætti sér þarna stað, þar sem öflugur og nútímavæddur her Ísraelsmanna væri annars vegar og Hamas-samtökin hins vegar. Það þyrfti samt að átta sig á að Hamas væri að senda stöðugar sprengjur yfir á Ísrael líka og viðbrögðin væru vegna þess.

Sagði Bryndís að hún teldi afstöðu íslenskra yfirvalda skynsamlega þar sem ofbeldi væri fordæmt sem og landtakan, en að halda áfram í samtali og samstarfi „við okkar nánustu samstarfsríki“ þegar komi að þessu máli. Sagði hún að aðalmarkmiðið núna ætti að vera að koma á vopnahléi þar sem ótækt væri að vakna upp við fréttir á hverjum morgni um hversu margir hafi látist í átökunum. Þegar vopnahléi hafi verið náð sé hægt að fylgja eftir þeim lausnum sem lagðar hafi verið fram í deilunni undanfarin ár og áratugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert