Nýtt líf hjá bræðrum

Jeppinn sem nýr. Benedikt og Guðmann Valberg stoltir að loknu …
Jeppinn sem nýr. Benedikt og Guðmann Valberg stoltir að loknu verki.

Skagfirsku bræðurnir Benedikt Valberg, bóndi og bifvélavirki í Djúpadal í Rangárþingi eystra, og Guðmann J. Valberg, bifreiðasmiður í Kópavogi, luku nýlega við að smíða og setja saman nýtt hús á Willys-jeppa árgerð 1963. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þeir eru í fullu fjöri þrátt fyrir háan aldur, Benedikt verður níræður á næsta ári og Guðmann er 85 ára.

Benedikt hefur verið með bílaverkstæði í Djúpadal síðan 1966. Maður sem hann kannast við hafði samband og spurði hvort hann vildi taka að sér að setja saman hús á Willys-jeppa árgerð 1963.

„Hann sagðist hafa átt bílinn í 30 ár og þau hjónin hefðu ferðast mikið á honum um hálendið, en fyrir sex árum hefði jeppinn verið rifinn í sundur og enginn viljað setja hann saman aftur. Ég sagði honum að ef bróðir minn vildi gera þetta með mér gæti ég tekið verkið að mér. Síðan talaði ég við Manna og við gengum í málið. Við þurftum að endursmíða húsið, það var allt ónýtt, og skúffan var líka meira og minna ryðguð í sundur, en við þurftum ekkert að fara í gangverkið. Það var í fínu lagi.“ Hann bætir við að hann hafi fengið Kristján Jósefsson, vin sinn á Hvolsvelli, til þess að sprauta jeppann. „Hann er mun yngri en við og mjög flinkur bílamálari.“

Reynslan mikilvæg

Manni er líka með tól og tæki í bílskúrnum sínum, en hefur nánast ekkert sinnt bílasmíðum síðan 1963, í um 58 ár. Hann vann hjá Agli Vilhjálmssyni þangað til, stofnaði þá viðgerðarfyrirtæki með bróður sínum en vann síðan mest á gröfum, einkum fyrir bændur og í vegalagningu víða um land frá um 1970 þar til hann fór á eftirlaun sjötugur. „Ég átti nú ekki von á því að fara aftur í svona jeppasmíði þegar Benni hringdi, en ég smíðaði mörg svona hús á árum áður og það var eins og ég hefði aldrei hætt, vissi nákvæmlega hvað þurfti að gera og hikaði aldrei,“ segir hann um vinnuna við jeppann. Hliðarnar og efni í toppinn hafi fylgt með en þeir hafi þurft að raða öllu saman og ryðbæta skúffuna. „Bíllinn var í mjög góðu standi og við vorum innan við mánuð að gera jeppann sem nýjan.“

Upprunalegt hús jeppans var frá Agli Vilhjálmssyni, þar sem bræðurnir lærðu til verka og fengu réttindin upp úr miðri síðustu öld. Því voru hæg heimatökin. „Ég vissi nákvæmlega hvað þurfti að gera og hvernig, hef byggt yfir 32 bíla,“ segir Benni.

Manni tekur í sama streng. „Handtökin gleymast aldrei,“ segir hann. Segir að viðgerðirnar og smíðarnar hafi alla tíð verið skemmtilegar og sérstaklega hafi verið gaman að fást við þennan Willys-jeppa því hann hafi verið upprunalegur. „Það var ekki búið að gera skrímsli úr honum.“

Manni segist annars taka því rólega, dyttar nú við sumarbústaðinn sinn en taki að sér verk þegar þau bjóðast. „Ég er í ágætis standi og er alltaf til taks í hvað sem er.“

Bílaviðgerðirnar hjá Benna hafa legið niðri í sauðburðinum. Honum lýkur um helgina og í gær tóku þau geiturnar út úr húsi. „Við konan, sem er bara ári yngri en ég, erum með 50 kindur í burði og höfum þurft að vakna á klukkutíma fresti til að fylgjast með,“ segir hann. „Því bíður einn bíll með skemmda hlið og á annan vantar sílsa. Ég fer í þá eftir burð.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert