Ræðir um Ísrael við Blinken og Lavrov

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. .
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. . mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist á Alþingi ætla að ræða átök á Gaza-svæðinu við utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands nú í vikunni.

Hún sagðist myndu taka málið upp á fundum með Antony Blinken og Sergei Lavrov til að reyna að ná friðsamlegri lausn um þessi mál. Þeir verða hér á landi af tilefni ráðherrafundar Norðurskautsráðsins í vikunni en gert er ráð fyrir að Blinken lendi á áttunda tímanum í kvöld. 

Halldóra Mogensen og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmenn Pírata og Viðreisnar, spurðu forsætisráðherra um viðbrögð við loftárásum Ísraelshers á Gaza-svæðinu í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þær vildu vita til hvaða aðgerða íslenska ríkisstjórnin ætlaði að grípa og um opinbera afstöðu hennar til málsins.

Katrín sagði ástandið skelfilegt og benti á að einungis 10 Ísraelar hefðu látist samanborið við 200 Palestínumenn. Fórnarlömbin væru almennir borgarar, konur og börn. Katrín benti á að aðgerðirnar væru ólögmætar og að þær brytu í bága við öll alþjóðalög og alþjóðlegan mannúðarrétt.

Tveggja ríkja lausnin sú eina

Að sögn Katrínar er afstaða stjórnvalda skýr og nefndi hún að utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefði greint utanríkisráðherra Noregs frá henni á símfundi. Noregur á sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem þessi mál eru til umræðu. Katrín lagði áherslu á mikilvægi þess að leysa deiluna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og að vopnahléi þyrfti að koma á tafarlaust.

Katrín sagði að tveggja ríkja lausnin væri sú eina í augum íslenskra stjórnvalda. Því til stuðnings benti hún á að íslenska ríkið hefði viðurkennt sjálfstæði Palestínu á meðan hún sjálf sat í ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina