Segir brottvísun Palestínumanna hræsni

Frá mótmælum á Austurvelli um helgina.
Frá mótmælum á Austurvelli um helgina. mbl.is/Sigurður

„Mér finnst þetta bara ótrúleg hræsni af íslenskum stjórnvöldum, að fordæma hvernig Ísraelsmenn eru að koma fram við Palestínumenn en á sama tíma svipta Palestínumenn, sem hingað hafa leitað eftir vernd, öllum bjargráðum og hóta þeim með því að brottvísa þeim út í óvissu, það finnst mér bara fáránlegt,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir í samtali við mbl.is.

Elínborg, sem starfar eftir hugmyndafræði samtakanna No Borders og hefur komist í kynni við fjölmarga flóttamenn, segir að Útlendingastofnun hafi fyrr í dag vísað tveimur Palestínumönnum út úr húsnæði stofnunarinnar og á götuna. Á hún von á því að fleiri flóttamönnum verði vísað á götuna á næstu dögum.

Elínborg segir flóttamennina sem var vísað á dyr bæði húsnæðislausa og framfærslulausa.

„Auðvitað finnst mér alltaf óheppilegur tími til að brottvísa fólki en þetta bara kristallar mjög vel hversu lítið er á bak við orðin hjá stjórnmálafólki,“ segir Elínborg.

Elínborg Harpa Önundardóttir.
Elínborg Harpa Önundardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Neita að fara í veirupróf

Ástæðu þess að fólkinu er hent á götuna segir Elínborg vera þá að þeir neiti að fara í kórónuveirupróf svo þeir komist til Grikklands, en flóttamennina á að senda þangað.

„Þetta er þeirra leið til að mótmæla með mjög friðsömum hætti því að þeim verði vísað brott í lífshættulegar aðstæður.“

Elínborg segir að þetta megi í rauninni túlka sem óbeina nauðung enda geti þeir hvergi leitað. Þeir komist ekki í gistiskýli því þeir hafi ekki kennitölu.  

Hún bendir á að aðstæður í Grikklandi séu hörmulegar og að Rauði krossinn hafi til að mynda margoft fordæmt og ítrekað það stöðugt að aðstæður sé mjög slæmar þar í landi og að þangað sé ekki boðlegt að senda fólk, óháð því hvort það hafi vernd eða ekki vernd. Þá bendir Elínborg á að ástand þar í landi sé ennþá verra vegna faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert