Þröng á þingi í Reykjavíkurprófkjöri

Höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, Valhöll.
Höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, Valhöll. mbl.is/Arnþór Birkisson

Framboðsfrestur fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík rann út á föstudag og buðu 13 sig fram, þar á meðal allir þingmenn flokksins í höfuðborginni.

Prófkjörið fer fram fyrstu helgi næsta mánaðar, dagana 4. og 5. júní, en síðast fór fram prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir alþingiskosningar árið 2016.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík halda sameiginlegt prófkjör fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö, en sá sem þar hlýtur efsta sætið velur sér kjördæmi, sá sem fær annað sætið leiðir listann í hinu kjördæminu og svo raðast menn koll af kolli til skiptis í kjördæmin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Athyglin þar mun einkum beinast að oddvitaslagnum milli dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, þeirra Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Baráttan um næstu sæti á eftir verður þó sjálfsagt alveg jafnathyglisverð. Langflestir frambjóðendur tilgreina sæti, sem þeir óska eftir, og enginn biður um minna en 5. sætið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú fimm þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum.

Lítið um ný andlit í framboði

Fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík er úr vöndu að ráða, því auk ráðherranna eru þrír þingmenn aðrir í framboði (Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson og Sigríður Á. Andersen) og tveir varaþingmenn (Herdís Anna Þorvaldsdóttir og Hildur Sverrisdóttir). Annar þeirra fv. varaborgarfulltrúi og hinn auk þess aðstoðarmaður ráðherra, en svo er raunar annar aðstoðarmaður einnig í kjöri (Diljá Mist Einarsdóttir) og einn fyrrverandi borgarfulltrúi (Kjartan Magnússon). Þá er í kjöri formaður upplýsinga- og fræðslunefndar flokksins, sem einnig situr í miðstjórn (Friðjón R. Friðjónsson). Þrír óbreyttir eru svo í kjöri, sem kalla má grasrótarframbjóðendur (Birgir Örn Steingrímsson, Ingibjörg H. Sverrisdóttir og Þórður Kristjánsson), en ein þeirra er raunar formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert