Á móti varnarsamningi en hlynnt þjóðaröryggisstefnu

Antony Blinken og Katrín Jakobsdóttir í Hörpu.
Antony Blinken og Katrín Jakobsdóttir í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna áratuga gamalt og afar sterkt. Samstarfið hafi staðið styrkum fótum í gegnum fjölda ríkisstjórna og því telur hún það munu standa áfram, segir hún í viðtali við mbl.is eftir fund hennar með utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken.

Hún segir þjóðaröryggisstefnu Íslands frá 2016 vera eina af grunnstoðum íslenskra varnarmála.

Spurð að því hvort hún sjái aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn sem hluta af framtíð Íslands segir Katrín:

„Mín persónulega skoðun, og míns flokks, hefur verið á móti varnarsamningnum. Við stöndum hins vegar við þjóðaröryggisstefnuna þar sem samningurinn er ein af stoðunum, það þekkja bandarísk stjórnvöld vel. Hins vegar leggjum við áherslu á gott tvíhliða samstarf milli þessara ríkja þar sem það býður upp á mikla möguleika.“

mbl.is