Telur Ísland ekki í klemmu milli Kína og Bandaríkjanna

Guðlaugur Þór Þórðarson á blaðamannafundi í Hörpu.
Guðlaugur Þór Þórðarson á blaðamannafundi í Hörpu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var spurður út í tengsl Íslands og Kína og fríverslunarsamning þeirra á blaðamannafundi vegna heimsóknar Antony Blinkens utanríkisáðherra Bandaríkjanna.

Ísland hefur verið í brennidepli vegna landfræðilegrar staðsetningar og laðað að áhuga bæði frá Bandaríkjunum og Kína. Tengsl Íslands og Kína eru vel þekkt, má þar nefna fríverslunarsamninginn milli ríkjanna frá 2013 og boð kínverskra stjórnvalda til Íslands um að taka þátt í „Belti og braut“-áætluninni.

Fréttamaður Reuters spurði Guðlaug hvort hann teldi Ísland í klemmu milli Bandaríkjanna og Kína vegna þessa.

Guðlaugur sagði mikilvægt að halda því til haga að verslunarsambandi Íslands og Kína sé ekki alls kostar sambærilegt verslunarsambandi Íslands við Bandaríkin. Bandaríkin séu okkar langstærsta viðskiptaþjóð á meðan verslun milli Íslands og Kína væri frekar í líkingu við verslunarsamband Íslands og Svíþjóðar.

Ísland leggur mikið vægi á að eiga gott samband við Kína. Í ár séu 50 ár síðan Ísland og Kína hófu milliríkjasamstarf og þau deili ýmsum hagsmunamálum. Á sama tíma stendur afstaða Íslands til alþjóðlegra mannréttinda óhögguð, það gildi þvert á landamæri.

Guðlaugur Þór og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína.
Guðlaugur Þór og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Ánægjulegt að Blinken deili áhuganum

Vegna þessa hefur Ísland tekið undir með þjóðum eins og Bandaríkjunum þegar það kemur að því að gagnrýna Kína fyrir mannréttindabrot. Þrátt fyrir það sé mikilvægt fyrir Ísland að eiga í samskiptum við önnur ríki með viðskiptasambandi. Guðlaugur sagði viðskipti þýða meira en einungis það að skiptast á vörum fyrir gjaldeyri heldur opni viðskipti brýr milli menningarheima, skapi vináttu og samstarf.

Guðlaugur segir ekkert launungarmál að hann hafi beitt sér til að auka viðskipti milli Bandaríkjanna og Íslands, honum þyki ánægjulegt að Blinken deili þeim áhuga. Hann sagði það sameiginlegan vilja Bandaríkjanna og Íslands að styrkja sambandið.

Guðlaugur Þór á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Guðlaugur Þór á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is