Úrkoman hefur litlu breytt

Hætta á gróðureldum er enn að mestu óbreytt.
Hætta á gróðureldum er enn að mestu óbreytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enn eru þurrkar í kortunum og þessir skúrir sem hafa verið að koma hafa voða lítið að segja,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum um áframhaldandi hættustig almannavarna vegna gróðurelda. Hann bætir þó við að úrkoman hafði mest áhrif á Reykjanesinu og því var hættustig fært niður í óvissustig þar.

Fundað var um málið í morgun og hefur staðan lítið breyst samkvæmt Rögnvaldi. Hann segir jarðveginn vera það þurr að hann taki ekki eins vel við rigningum. „Vatnið situr lengur á yfirborðinu og er þá fljótara að gufa upp áður en það nær að fara niður,“ segir Rögnvaldur.

„Næturkuldi hefur líka haft áhrif þar sem það hægir á að gróðurinn taki við sér,“ segir Rögnvaldur en þessi kuldi veldur því að sinan varir lengur. „Þegar gróðurinn er búinn að taka við sér þá er ekki eins auðvelt að brenna hann. Þetta spilar saman og gerir erfiðar aðstæður erfiðari,“ segir Rögnvaldur. 

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rögnvaldur segir að hættan sé farin að teygja sig inn í Strandasýslu en hættustig hefur verið hækkað á Norðurlandi vestra og leggur hann því áherslu á bann almannavarna á opnum eld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert