Bæta á þjónustu við fólk með geðrænan vanda

Geðdeild Landspítalans.
Geðdeild Landspítalans. mbl.is/​Hari

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur falið Landspítala að efna til vinnustofu um þjónustuferla með það að markmiði að bæta þjónustu við fólk með geðrænan vanda, auka skilvirkni hennar og draga úr biðlistum.

Til vinnustofunnar verða boðaðir fulltrúar allra veitenda geðheilbrigðisþjónustu á fyrsta, öðru og þriðja stigi heilbrigðisþjónustu sem og fulltrúar notenda. Megináhersla verður lögð á að finna leiðir til að tryggja samvinnu milli þjónustustiga og þjónustuveitenda, auk þess sem hlutverk einstakra þjónustueininga verða skilgreind. Miðað er við að afrakstur vinnustofunnar verði tillögur til úrbóta á þessu sviði sem skilað verði til ráðherra um miðjan ágúst. Vinnustofan verður haldin undir formerkjunum Rétt geðheilbrigðisþjónusta á réttum stað með skýrskotun í markmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins. 

Heilbrigðisráðherra stóð fyrir geðheilbrigðisþingi í desember á liðnu ári þar sem unnið var að mótun framtíðarsýnar í geðheilbrigðisþjónustu til ársins 2030. „Þar komu fram skýrar ábendingar um að skilgreina þurfi og sameinast um heildstæðan þjónustuferil þar sem öll þrjú þjónustustig geðheilbrigðisþjónustu væru samþætt og ynnu saman að því að tryggja notendum og fjölskyldum þeirra samfellda og skilvirka þjónustu.

Til að tryggja að raunverulegar úrbætur nái fram að ganga er mikilvægt að veitendur og notendur geðheilbrigðisþjónustu komi saman að því að rýna þjónustuna og vinna að mikilvægu breytingaferli frá upphafi.“

Landspítali hefur á að skipa sérhæfðum verkefnastjórum sem búa yfir mikilli reynslu og hafa leitt ýmis uppbyggingar- og umbótaverkefni sem tengjast bættum þjónustuferlum innan spítalans og einnig uppbyggingu og skipulagi nýs sjúkrahúss að því er segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

„Í þessu ljósi var ákveðið að fela Landspítalanum skipulagningu og utanumhald vinnustofunnar en áhersla verður lögð á að notendur sem og allir þjónustuveitendur eigi fulla aðkomu að verkefninu og taki virkan þátt í því. Heilbrigðisráðherra hefur veitt Landspítala 500.000 króna til verkefnisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert