Nýtt met slegið á fasteignamarkaði

Nýjar íbúðir á Austurhöfn við Hörpu.
Nýjar íbúðir á Austurhöfn við Hörpu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Nýtt met var slegið á fasteignamarkaði í mars hvað seldar íbúðir í einum mánuði varðar eða 1.300 útgefnir kaupsamningar. Þetta er áttundi mánuðurinn í röð sem þeir eru mun fleiri en tíðkast að jafnaði. Kaupsamningar á landinu öllu á undanförnum 12 mánuðum eru nú fleiri en á nokkru öðru 12 mánaða tímabili frá upphafi mælinga árið 2002. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. 

Á höfuðborgarsvæðinu hefur annar eins fjöldi kaupsamninga ekki sést síðan í mars 2007 en þeir voru rúmlega 800. Á sama tíma voru kaupsamningar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins um 260 talsins sem er meiri fjöldi en áður hefur mælst. Annars staðar á landinu voru kaupsamningar 230 talsins, sem er einum samningi fleira en fyrra met sem var sett í maí 2007.

Sölutími aldrei verið styttri 

Meðalsölutími íbúða hefur dregist verulega saman seinustu mánuði á höfuðborgarsvæðinu en hann var í mars um 38 dagar og hefur aldrei mælst styttri. Sölutími íbúða í fjölbýli var 37 dagar og 40 dagar fyrir sérbýli. Á landsbyggðinni var sölutíminn að jafnaði 74 dagar og hefur verið nokkuð stöðugur frá því í september í fyrra.

Enn virðist vera talsverður eftirspurnarþrýstingur á fasteignamarkaði. Á landinu öllu seldust um 25% af öllum íbúðum yfir ásettu verði samanborið við 28% í síðasta mánuði en þetta er þó aðeins annar mánuðurinn síðan 2017 sem yfir 20% íbúða seljast yfir ásettu verði. Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 30% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði og um 31% íbúða í einbýli, sé miðað við þriggja mánaða meðaltal. Á landsbyggðinni seldust um 6% íbúða í fjölbýli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert