„Ólögmætt og siðferðislega rangt“

Magnús Davíð Norðdahl.
Magnús Davíð Norðdahl. Ljósmynd/Aðsend

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður hælisleitanda frá Palestínu, hefur kært til kærunefndar útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að svipta hann húsnæði og fæði.

Fram kemur í bréfi sem Magnús sendi fjölmiðlum, að Útlendingastofnun hafi tekið þessa ákvörðun síðastliðinn þriðjudag og að hún hafi ekki verið skrifleg.

„Þessi ákvörðun er kærð til kærunefndar útlendingamála og þess krafist að hún verði felld úr gildi og stofnunni gert að veita umbjóðanda mínum þjónustu á nýjan leik. Þá er þess krafist að kæran fái flýtimeðferð með vísan í brýna hagsmuna umbjóðanda míns,“ segir í bréfinu.

Ráðherra geti breytt reglugerðinni

Í samtali við mbl.is segir Magnús ákvörðun Útlendingastofnunar vera ólöglega og vísar þar í 2. málsgrein 23. greinar reglugerðar um útlendinga þar sem segir að svipta megi hælisleitanda þjónustu þegar ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið kemur til framkvæmdar.

„Umrætt orðalag verður ekki skilið á annan hátt en að ákvörðun komi til framkvæmdar þegar frávísun á sér stað, þ.e. þegar viðkomandi er ekki lengur hér á landi. Umbjóðandi minn er hins vegar enn á landinu og ákvörðun um frávísun því ekki verið framkvæmd. Svipting þjónustu er því ótæk og ólögmæt,“ bendir Magnús á.

Telji menn að vafi sé uppi varðandi orðalagið segir hann að almennar lögskýringar séu á þá leið að sá sem eigi að sæta skerðingu skuli njóta vafans, ekki ríkið. „Dómsmálaráðherra getur breytt þessari reglugerð eins og hendi sé veifað en það hefur ekki verið gert,“ segir hann og bætir við að framferði Útlendingastofnunar sé bæði ólögmætt og siðferðislega rangt í ljósi nýlegra frétta frá botni Miðjarðarhafs.

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hari

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að endursending hælisleitenda til Grikklands standist lög. Hún benti á að aðeins séu sendir hælisleitendur sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.

Til stendur að senda skjólstæðing Magnúsar til Grikklands og segir lögmaðurinn ástandið þar í landi fyrir hælisleitendur vera „með öllu óforsvaranlegt“. Fjöldi alþjóðlegra skýrslna hafi bent á slæmt ástand þar, enda sé flóttafólk í hrönnum að flýja frá landinu.

Hann segir stutt síðan stjórnvöld hérlendis frestuðu brottvísun til Grikklands vegna Covid-19. Það ástand hafi ekki batnað en samt hafi Ísland byrjað að senda fólk þangað á nýjan leik.

Skjólstæðingur hans neitaði að fara í Covid-próf eins og þörf er á áður en brottvísun hefst. Magnús segir prófið ekki tengjast einkennum, lýðheilsusjónarmiðum eða sóttvarnalögum. „Ég hef ekki enn hitt hælisleitanda sem sjálfviljugur flýtir eigin brottvísun,“ segir hann. Með því að svipta manninn húsnæði og fæði sé verið að grípa til óbeinnar þvingunar og refsa honum.

Ekki náðist í upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina