Varnargarðar kaupi tíma fyrir rýmingu

Vinnu við varnargarðana við hraunið í suðurhluta Merardala miðar vel …
Vinnu við varnargarðana við hraunið í suðurhluta Merardala miðar vel áfram. mbl.is/Unnur Freyja

Unnið er að því að hækka varnargarðana við hraunið í suðurhluta Merardala úr fjórum metrum upp í átta. mbl.is hafði samband við Boga Adolfsson, formann björgunarsveitarinnar Þorbjarnar sem segir vinnunni miða vel áfram og að útlit sé fyrir að það náist að klára hækkunina á næstu tíu dögum. Rétt sé þó að árétta að garðarnir eru ekki hannaðir til að stöðva hraunflæðið.

„Það er búið að bæta við jarðýtu og þeir eru á fullu að vinna í dag. Tvær jarðýtur og ein beltisgrafa eru á svæðinu núna. Þeir eru ekkert lengi að þessu á þessum vélum sem þeir eru með. Nú þegar önnur jarðýta er komin þá tvöfaldast vinnuhraðinn", segir Bogi.

Aðspurður hvort útlit sé fyrir því að varnargarðarnir nái að halda hraunflæðinu í skefjum áréttar Bogi að þeir séu ekki hannaðir til að halda því í skefjum: 

„Þetta er hannað til að hægja á því. Þetta snýst um að kaupa tíma, prófa og skipuleggja til framtíðar. Með þessum hætti náum við góðum upplýsingum um það hvernig við getum notað þetta ef þetta kemur nálægt byggð. Svo var settur jarðstrengur þarna undir til að sjá hvernig hitinn leiðir í gegnum jörðina og hvort hann hafi áhrif á jarðstrenginn. Það eru fullt af góðum upplýsingum koma koma úr þessu. Þetta mun kannski aldrei stoppa en segjum að það komi til þess að það þurfi að rýma eitthvað bæjarfélag að þá er möguleiki að setja upp svona varnargarð og hann mundi þá kaupa okkur tíma fyrir rýmingu".

Bogi Adolfsson biður það fólk sem hyggst fara upp að …
Bogi Adolfsson biður það fólk sem hyggst fara upp að gosi um helgina að fara varlega. mbl.is/Sigurður Bogi

Að sögn Boga eru enn sem komið er engin áform um hækka garðana meira eða ráðast í aðrar aðgerðir ef í ljós kemur að núverandi ráðstafanir ganga ekki upp.

„Það er lítið hægt að gera. Það verða kannski settir garðar fyrir neðan. Það er ákvörðun sem kemur bara að ofan.“

Fram undan er löng helgi og veðurspáin þokkaleg. Bogi biður það fólk sem hyggst ganga upp að gosi að fara varlega:

„Sýna skynsemi og kannski kasta kveðju á björgunarsveitafólk sem það hittir á leiðinni.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert