Benedikt boðið neðsta sæti á lista Viðreisnar

Benedikt Jóhannesson.
Benedikt Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benedikt Jóhannesson mun ekki vera í framboði fyrir Viðreisn í alþingiskosningunum sem fram fara í haust. Uppstillingarnefnd bauð Benedikt neðsta sæti á lista. „Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það,“ skrifar Benedikt í færslu á Facebook þar sem hann greinir frá þessu. 

Benedikt greindi frá því síðastliðið haust að hann gæfi kost á sér í oddvitasæti á suðvesturhorninu, hvort sem væri í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna eða í Kraganum, fyrir alþingiskosningarnar, en Benedikt er fyrrverandi formaður og ráðherra Viðreisnar. 

Viðreisn hef­ur fjóra menn á þingi: Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur og Jón Stein­dór Valdi­mars­son í Krag­an­um, Hönnu Katrínu Friðriks­son í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður og Þor­björgu Sig­ríði Gunn­laugs­dótt­ur í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður. Öll sækj­ast þau áfram eft­ir þing­mennsku.

Benedikt greinir frá því að hann hafi lagt til að prófkjör færi fram þar sem margir gæfu kost á sér til að leiða lista Viðreisnar á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurráð flokksins hafi þó ákveðið að fara aðra leið og varð uppstilling fyrir valinu, líkt og tíðkast hefur hjá Viðreisn frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2016. 

Þorsteinn Pálsson, formaður uppstillingarnefndar, bað mig að hitta sig síðastliðinn þriðjudag. Á fundi okkar sagði hann mér, að það væri einróma niðurstaða nefndarinnar að bjóða mér neðsta sæti listans. Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það,“ skrifar Benedikt. 

Hann mun því ekki verða í framboði fyrir Viðreisn í komandi kosningum, en segist þó ekki hættur í stjórnmálum: 

Þar með er útséð um að ég verði í framboði fyrir Viðreisn að þessu sinni, en ég held áfram í pólitík og styð nú sem fyrr grunnstefnu Viðreisnar, enda hygg ég að ég hafi skrifað megnið af henni. Sjaldan hefur verið brýnni þörf fyrir einbeitta, frjálslynda rödd í samfélaginu og ég mun ekki láta mitt eftir liggja.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert