Bjartsýnn á stöðu ferðaþjónustunnar

Ferðaþjónustan setur sig í stellingar fyrir komandi ferðasumar.
Ferðaþjónustan setur sig í stellingar fyrir komandi ferðasumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan er skárri en menn héldu,“ sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri spurður um stöðu ferðamála í sumar. Þá segir hann að fjöldi ferðamanna fari mikið eftir því hvernig gangi að opna á ferðalög frá Evrópu. 

Óvissa hefur verið með evrópska ferðamenn, þar sem sóttvarnaaðgerðir í Evrópu eru enn þá umfangsmeiri en annars staðar. Miðað við undirtektir ferðaþjónustufyrirtækja á Evrópumarkaði gengur markaðsstarf hægt, en þó er eitthvað að gerast. Þá hefur Evrópusambandið til að mynda boðað að í lok júní verði búið að aflétta helstu hömlum af ferðalögum milli landa. 

„Það sem við vitum núna er að bandaríski markaðurinn er að taka betur við sér heldur en menn gerðu ráð fyrir,“ sagði Skarphéðinn, „þannig að það er þokkaleg eftirspurn og tiltölulega bjart fram undan.“ Þá bætir hann við að langflestir ferðamenn sem þegar hafa komið til landsins á árinu hafi komið frá Bandaríkjunum. 

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Ólafur Þórisson

Play og gosið í Geldingardölum ýta undir fjölgun ferðamanna 

Þegar bætist við flugfélag, hvort sem það er íslenskt eða erlent, hefur það jákvæð áhrif á fjölgun ferðamanna,“ sagði Skarphéðinn. Þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi legið niðri um tíma segir hann að afkastagetan  að stórum hluta sú sama og hún var fyrir tíma Covid, eða um 300.000 ferðamenn á mánuði. 

Þá segir hann að ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið að setja sig í stellingar, mörg hver fjölgað starfsfólki og gert allt klárt fyrir ferðasumarið. „Auðvitað eru einhver merki þess að lykilfólk innan ferðaþjónustunnar hafi horfið til annarra starfa, sem er óheppilegt, en þá vonar maður að komi maður í manns stað.“

Skarphéðinn segist reikna með því að gosið í Geldingadölum verði einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum í sumar. „Gosið vekur sannarlega athygli hjá þeim ferðamönnum sem eru að koma þessa dagana, þannig að þetta er alveg klárlega eitthvað sem ferðamenn munu hafa áhuga á,“ sagði Skarphéðinn. Þá bætir hann einnig við að Ferðamálastofa hafi verið að taka þátt í uppbyggingu á svæði eldgossins með það í huga. 

 

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

 Bjartsýnn fyrir komandi haust 

Vísbendingar eru til þess að haustið geti orðið góður tími fyrir ferðaþjónustuna, ekki bara hér á landi heldur annars staðar líka. Þá segir Skarphéðinn að samkvæmt tölfræði um bókanir á gistingum inn í haustið, september, október og jafnvel nóvember, lofi þær góðu.  

„Ég hef sjálfur gert ráð fyrir því að ágústmánuður geti orðið býsna góður og haustið nokkuð gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert