Nota stærri vélar vegna mikillar eftirspurnar

Vegna mikillar eftirspurnar verða stærri 226 sæta Boeing 767-vélar notaðar …
Vegna mikillar eftirspurnar verða stærri 226 sæta Boeing 767-vélar notaðar í hluta flugferða Delta hingað í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta flugferð Delta Air Lines frá Boston lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun. Boston er þriðji og nýjasti áfangastaður Delta í Bandaríkjunum. Flug frá New York hófst í byrjun þessa mánaðar og 28. maí hefst flug á nýjan leik frá Minneapolis. Flogið verður daglega frá þessum þremur áfangastöðum í allt sumar og fram á haust. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Mikill áhugi er á Íslandi hjá bólusettum bandarískum ferðalöngum og verður þetta ár það umsvifamesta hjá Delta í farþegaflugi milli Bandaríkjanna og Íslands. Vegna mikillar eftirspurnar verða stærri 226 sæta Boeing 767-vélar notaðar í hluta flugferðanna í sumar segir enn fremur í tilkynningu.

„Á árunum fyrir heimsfaraldurinn voru bandarískir ferðamenn um fjórðungur erlendra ferðamanna hér á landi. Samantekt Samtaka ferðaþjónustunnar sýnir að þeir voru einnig atorkusamastir allra erlendra ferðamanna við kaup á vöru og þjónustu innanlands, eða fyrir 38 þúsund krónur á dag að meðaltali árið 2019. Miðað við óbreytta neysluhegðun skilar viku dvöl hvers ferðamanns frá Bandaríkjunum um 270 þúsund króna gjaldeyristekjum í þjóðarbúið,“ segir í tilkynningu.

Amy Martin, framkvæmdastjóri alþjóðaleiðakerfis Delta segir að eftir heilt ár af takmörkuðum ferðamöguleikum séu Bandaríkjamenn æstir í að upplifa ný ævintýri. „Með tilkomu daglegra ferða frá Boston í viðbót við New York koma yfir 350 ferðamenn daglega til Íslands með Delta til að upplifa Ísland með sinni fjölbreyttu og áhugaverðu náttúru.“

„Koma bólusettra ferðamanna frá Bandaríkjunum hefur keyrt íslenska ferðaþjónustu í gang af miklum krafti. Mikill áhugi Bandaríkjamanna á að koma til Íslands skiptir miklu fyrir efnahagslífið, enda er ferðaþjónustan mikilvirkur þátttakandi í vexti og þróun hagkerfisins. Við hlökkum mikið til þess að allt fari á fullan snúning,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í fréttatilkynningu Delta.

mbl.is