Ósannað að pyndingarhætta sé ekki til staðar

Maðurinn framvísaði vegabréfi annars manns við komuna til landsins árið …
Maðurinn framvísaði vegabréfi annars manns við komuna til landsins árið 2017. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur kvað í dag upp dóm í máli srílanksks karlmanns sem synjað var um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi, en bæði Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála höfðu tekið afstöðu til málsins. Dómarar Landsréttar komust að öndverðri niðurstöðu.

Karlmaðurinn kom hingað til lands árið 2017 og var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli eftir að hafa framvísað vegabréfi annars manns. Útlendingastofnun ákvað upphaflega, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, að umsókn mannsins um vernd og dvalarleyfi yrði ekki tekin til efnismeðferðar, heldur skyldi hann sendur úr landi.

Kærunefnd útlendingamála sneri þeirri ákvörðun við, og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka málið fyrir að nýju og var það þá tekið til efnismeðferðar.

Kvaðst hafa sætt pyndingum

Með ákvörðun þann 4. apríl 2018 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að maðurinn væri ekki flóttamaður og var honum synjað um viðbótarvernd og dvalarleyfi á Íslandi. Maðurinn hélt því aftur á móti fram að hann hefði sætt pyndingum af hálfu öryggissveita í heimalandi sínu Srí Lanka vegna kynþáttar síns, en hann er Tamíli.

Þessa ákvörðun stofnunarinnar staðfesti kærunefnd útlendingamála og lagði fyrir manninn að hverfa sjálfviljugur af landi brott innan 30 daga. Maðurinn höfðaði því dómsmál á hendur Útlendingastofnun og kærunefndinni, til ógildingar ákvörðunarinnar.

Ófullnægjandi mat olli ógildingu

Í dómi Landsréttar er fjallað um rannsókn kærunefndar útlendingamála, og komist að þeirri niðurstöðu að mat hennar á aðstæðum í Srí Lanka, og hættu á því að maðurinn myndi sæta pyndingum, væri ófullnægjandi.

Komst rétturinn því að þeirri niðustöðu að slíkir annmarkar væru á rökstuðningi kærunefndarinnar fyrir úrskurði sínum að hann skyldi ógiltur, enda hafi nefndin ekki sýnt fram á það að maðurinn væri öruggur undan pyndingum í heimaríki sínu.

Dómur Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert