Réttlætanlegt að gera tilraunir með varnargarða

Eldgos í Geldingadölum á Reykjanesi. Reykjanes - Geldingadalir - Fagradalsfjall …
Eldgos í Geldingadölum á Reykjanesi. Reykjanes - Geldingadalir - Fagradalsfjall - mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir réttlætanlegt að gerðar séu tilraunir með hraunvarnargarða við eldgosið í Geldingadölum.

Undanfarna daga hafa varnargarðar verið reistir við eldgosið í Geldingadölum. Ekki eru allir sáttir við þessar framkvæmdir og hafa þær hlotið talsverða gagnrýni, meðal annars af sökum náttúruverndarsjónarmiða.

Varnargarðar við hraunið í suðurhluta Merardala.
Varnargarðar við hraunið í suðurhluta Merardala. mbl.is/Unnur Freyja

Garðarnir ekki líklegir til árangurs en tilraunir mikilvægar

Í samtali við mbl.is segist Magnús skilja gagnrýnina en að sama skapi telur hann tilraunir á varnargörðum mikilvægar.

„Við erum með byggð á Reykjanesskaga sem og innviði sem gætu verið í hættu ef það gýs á skaganum næstu áratugi, þá er ágætt og mikilvægt að læra eins mikið af þessu gosi og hægt er. [...] Að verja mannvirki fyrir hraunrennsli er partur af því sem við þurfum að vera viðbúin að gera. Allt annað er óraunhæft,“ segir Magnús í samtali við blaðamann mbl.is.

Þrátt fyrir að varnargarðarnir séu mikilvægir telur Magnús þá ekki líklega til að skila miklum árangri ef gosið heldur áfram með sama hætti. „Ef gosið heldur áfram í einhvern tíma eða einhverjar vikur skipta garðarnir engu máli.“

Bendir þá Magnús á að Íslendingar séu vanir því að bregðast við náttúruöflum með einhverskonar ígripum. Vísar hann þá meðal annars til ákvörðunar sem var tekin í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010 þegar gröfumaður mokaði í sundur veg við Markarfljótsbrú og fyrir vikið fór ekkert vatn austur með Eyjafjöllum.

Mánuðir í að hraunið nálgist innviði

Samkvæmt Magnúsi er gosið í svipuðum gír og það hefur verið undanfarna daga og telur hann það í viðráðanlegri stærð. „Það óx náttúrulega töluvert meira núna en það var í upphafi mánaðarins en hvort að það hafi verið að minnka aðeins aftur getum við ekki sagt til um.“

Telur hann þá alls ekki víst að gosið endist nógu lengi til að hætta stafi að byggð og innviðum. „Miðað við núverandi hegðun þá eru mánuðir í að hraunið nálgist inhverja innviði alveg sama hvaða leið það fer en það er engin leið að stoppa það ef það heldur áfram eins og það er.“

Magnús bendir þá einnig á að ótrúlega fá dauðsföll hafi orðið á Íslandi sem hægt er að rekja með beinum hætti til eldgosa.

„Strjálbýlið hefur bjargað okkur Íslendingum. Það deyr eiginlega enginn í gosum á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert