Samherji hafi reynt að hafa áhrif á formannskjör BÍ

Samherji.
Samherji. mbl.is/Sigurður Bogi

Kjarninn og Stundin fullyrða að Samherji hafi gert tilraunir til þess að hafa áhrif á formannskjör Blaðamannafélags Íslands í von um að koma í veg fyrir að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, nýkjörinn formaður, yrði nýr formaður félagsins. Sigríður segir þetta „algjörlega ólíðandi“.

Kjarninn og Stundin hafa í dag og í gær birt upplýsingar úr stafrænum samskiptum nokkurra starfsmanna Samherja sem mynda svokallaða skæruliðadeild. 

Í morgun birti Kjarninn upplýsingar um að umræddir starfsmenn, Arna Brydís McClure, Þorbjörn Þórðarson og Páll Steingrímsson, höfðu talið að formannskosningar í Blaðamannafélaginu snerust um að RÚV hygðist taka yfir félagið og nota það gegn Samherja. Vildi hópurinn því reyna að hafa áhrif á kosningarnar þannig að Sigríður, sem vinnur á RÚV, næði ekki kjöri heldur Heimir Már Pétursson, sem hópurinn leit á sem fulltrúa einkarekinna miðla. 

Í yfirlýsingu sinni segir Sigríður að þeim aðgerðum sem lýst er í frétt Kjarnans hafi verið ætlað að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni. 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég lít á þetta sem alvarlega aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi sem er algjörlega ólíðandi. Aðgerðunum sem þarna er lýst er ætlað að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni. Þetta eru aðgerðir sem beinast ekki einungis gegn mér heldur einnig mótframbjóðanda mínum því ég treysti mér til að fullyrða að hann hafi ekki haft neina hugmynd um þessa atlögu að mér. Né heldur hefði hann verið henni samþykkur enda þekki ég hann að því einu að vera staðfastur og heiðarlegur prinsippmaður,“ segir Sigríður. 

Málið sé grafalvarlegt og ólíðandi sé að fyrirtæki á borð við Samherja geri tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í Blaðamannafélagi Íslands. 

Þá segir Sigríður að engar hópskráningar í félagið hafi átt sér stað í aðdraganda kosninganna, hvorki fyrir hvatningu hennar né Heimis Más. Kosningabarátta þeirra beggja hafi verið lágstemmd, heiðarleg og málefnaleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert