Segja ASÍ fara með rangmæli um samninga við PLAY

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„ÍFF furðar sig á vinnubrögðum ASÍ að reka áróður gegn félaginu og viðsemjanda þess,“ segir í tilkynningu frá Íslenska flugstéttafélaginu (ÍFF), sem samið hefur um kjör flugliða hjá flugfélaginu Play. 

Þar segir að fulltrúar ÍFF hafi fundað með fulltrúum ASÍ 3. júní fyrir ári þar sem starfsemi ÍFF var kynnt.

Eftir fundinn vorum við spurð hvort við hefðum skoðað að ganga í samtök ASÍ. Óskuðum við þá eftir kynningu um hvað slík aðild myndi fela í sér. Ekkert hefur enn heyrst frá ASÍ.“

Tilkynningin frá ÍFF kom í kjölfar ummæla sem Drífa Snædal lét falla í Sprengisandi á Bylgjunni þar sem hún sagði að sig grunaði að ÍFF væri skúffustéttarfélag og spurði hvar þetta félag væri að finna.

Ósanngjörn og ódrengileg vinnubrögð

Einnig furðar ÍFF sig á því að ASÍ fari fyrst með rangmæli sín um ÍFF og kjarasamninga þess við PLAY í fjölmiðla áður en leitað er svara hjá félaginu.

Í krafti stærðar og tengsla sinna eru þetta ósanngjörn og ódrengileg vinnubrögð af aðaltalsmanni hinna vinnandi stétta á Íslandi.

Vegur þar þyngst að okkar mati fullyrðing forseta ASÍ um að lægstu laun flugliða séu undir lágmarkslaunum í landinu eða um 260 þúsund þegar staðreyndir hafa verið raktar um að þau séu um 352 þúsund, án vinnuframlags, í veikindum eða orlofi,“ segir í tilkynningunni. 

Í tilkynningunni harmar ÍFF og hafnar öllum „dylgjum og rangfærslum sem viðhafðar hafa verið af forystu ASÍ“.

Ásakanir um að ÍFF sé „gult stéttarfélag“ eru særandi og móðgun við okkur og það sem við stöndum fyrir. Samningar okkar eru gerðir í góðri trú eftir þeim leikreglum sem mótast hafa gegnum tímann til að skapa tækifæri fyrir félagsmenn og alls ekki til höfuðs öðrum félögum eða starfsbræðrum og -systrum,“ segir einnig í tilkynningu. 

Sagan rakin 

Í tilkynningunni er saga og tilurð félagsins rakin og útskýrð:

„Íslenska flugmannafélagið var stofnað 29. október árið 2014 af 15 flugmönnum WOW air.

Þegar best lét voru félagsmenn félagsins vel yfir 200. ÍFF er lítið opið frjálst stéttarfélag og innan þess mikil reynsla félagsmanna af trúnaðarstörfum fyrir önnur stéttarfélög innan flugstéttarinnar.

ÍFF hefur verið aðili að alþjóða-, evrópsku og norrænu flutningasamtökunum, ITF, ETF og NTF.

Eftir áfallið sem dundi yfir okkur 2019 lagði trúnaðarráð ÍFF fyrir félagsmenn á fundi að opna félagið fyrir fleiri stéttum að danskri fyrirmynd. Ástæða breytingarinnar var að búa til tækifæri fyrir félagsmenn og fyrrverandi samstarfsmenn til að geta stundað fag sitt á Íslandi, sem var samþykkt og úr varð Íslenska flugstéttafélagið. Hjá ÍFF er starfræktur sjúkrasjóður, SÍFF, einnig orlofsnefnd, stoðnefnd, alþjóðanefnd, samstarfsnefnd, samninganefnd, starfsráð og trúnaðarráð.

ÍFF leitaði til PLAY, áður WAB, og óskaði eftir að félagið myndi gera kjarasamning við sig. Allar samningsviðræður voru af hálfu fulltrúa sinna stétta. Flugmenn, sem áður höfðu samið fyrir hönd ÍFF við WOW, sömdu fyrir hönd flugmanna og fengu fyrrverandi flugliðar WOW, sem áður voru í samninganefnd FFÍ og samstarfsnefnd, umboð ÍFF til að semja fyrir flugliða.

Gerðir voru samþættir og straumlínulagaðir tímamótasamningar eftir helstu leikreglum markaðarins en með nýrri sameiginlegri framtíðarsýn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert