Geti keypt vín af vefverslun ÁTVR undir lögaldri

Í vínbúð ÁTVR.
Í vínbúð ÁTVR. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Arnar Sigurðsson vínkaupmaður segir ungmenni undir lögaldri auðveldlega geta keypt áfengi í gegnum vefverslun ÁTVR.

Arnar var gestur Sprengisands á sunnudag ásamt Steinunni Þóru Árnadóttur þingkonu. Þar tókust þau á um áfengissölu og einkarétt. Arnar heldur úti vefverslun með áfengi, fyrirtækið er skráð í Frakklandi en er aftur á móti með lager í Reykjavík. 

Arnar benti á að Vínbúðin ræki einnig vefverslun, en ÁTVR útbýr nú beiðni um lögbann á hendur vefverslunum sem bjóða neytendum hér á landi áfengi í smásölu. 

Þá sagði Arnar að ungmenni undir lögaldri gætu keypt áfengi af ÁTVR á netinu. Máli sínu til stuðnings sýndi hann Steinunni Þóru kvittun, sem mbl.is hefur undir höndum. Þar má sjá einstakling með fæðingardaginn 05.06. 2001 kaupa sér áfengi, en viðkomandi er þá 19 ára þangað til laugardaginn 5. júní. 

Arnar sagði ÁTVR ekki sýna aðgæslu gagnvart aldri viðskiptavina við vefverslunina. Hann sagði sama ungmenni hafa reynt að kaupa áfengi af sinni vefverslun, Santewines, en ekki getað það. Hann segir fyrirtækinu ekki hafa hugnast þau „lausatök sem hið opinbera sýnir í þessu tilliti“, og því hafi Santewines látið forrita viðbót við persónuauðkenniskerfi sitt sem gerir að verkum að einstaklingar undir lögaldri geta ekki keypt vín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert