Byggja hjúkrunarheimili fyrir 144 í Grafarvogi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, við undirritun …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, við undirritun samningsins í dag. Ríkið leggur til 85% þeirra 7,7 milljarða sem áætlað er að framkvæmdin muni kosta en borgin 15%. Ljósmynd/Heilbrigðisráðuneytið

Samningur um byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Mosaveg í Grafarvogi var undirritaður í dag af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Fyrirhugað hjúkrunarheimili mun hýsa allt að 144 íbúa og er áætlaður kostnaður við framkvæmdina 7,7 milljarðar króna. Ríkið leggur til 85% þeirrar upphæðar á móti 15% framlagi Reykjavíkurborgar. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist um mitt ár og að nýtt hjúkrunarheimili verði tekið til notkunar á síðari hluta árs 2026.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins

Grafarvogur. Mosavegur merktur með pílu.
Grafarvogur. Mosavegur merktur með pílu. Kort/Map.is

Framkvæmdin öll boðin út

Í tilkynningunni segir að framkvæmdin verði öll boðin út enda hafi sýnt sig að slíkt geti stytt framkvæmdatíma og leitt til aukinnar hagkvæmni, eða allt að 10% lægri stofnkostnaðar en við hefðbundnar opinberar framkvæmdir. 

Heilbrigðisráðuneytið og Reykjavíkurborg munu vinna sameiginlega að undirbúningi og stjórnun verkefnisins og verður skipaður sameiginlegur starfshópur í því skyni. Fyrsta verkefni hópsins mun felast í vinnu við gerð kröfu- og tæknilýsingar í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins. 

Vilja byggja annað við Ártúnshöfða

Samhliða undirritun samnings um hjúkrunarheimili við Mosaveg staðfestu heilbrigðisráðherra og borgarstjóri sameiginlega viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 200 íbúa á svæði við Ártúnshöfða í Reykjavík.

Unnið er að vinnu við skipulagningu svæðisins og er stefnt að því að hægt verði að hefja verklegar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili árið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert