Ótrúleg aðför og illa dulbúin hótun Hvít-Rússa

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór utanríkisráðherra fór yfir stöðu mála varðandi Hvíta Rússland á ríkisstjórnarfundi í dag. Ísland mun bregðast við, útfærsla viðbragðanna er hinsvegar enn í mótun á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og Evrópuríkjanna.

Um er að ræða ákvörðun stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi, að neyða flugvél Ryanair til að lenda í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Þar var Stjórn­ar­and­stæðing­ur­inn og blaðamaður­inn Rom­an Prota­sevich handtekinn. Evrópusambandið hefur sakað Hvíta-Rússland um hryðjuverkaárás.

Hann sagði að í sjálfu sér væri ekki komin nein niðurstaða um nákvæmlega hvernig Ísland muni bregðast við en þó sé ljóst að grípa þurfi til aðgerða til að svara þessu framferði Hvíta Rússlands.

„Þetta er ótrúleg aðför að tjáningarfrelsinu og rétti blaðamanna til að starfa,“ segir hann um aðgerðir Hvíta-Rússlands og bætir við að um sé að ræða „mjög illa dulbúna hótun“ um að þeir sem ætli að gagnrýna stjórnvöld þar muni ekki komast upp með það.

Hann segir alveg ljóst að öll bandalagsríki Íslands ætli sér að bregðast við, en málið er til umræðu bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og meðal Evrópuríkja. „Það verða viðbrögð frá alþjóðasamfélaginu vegna þessa, af augljósum ástæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert